Ræddu um að sameina krafta sína

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, funduðu …
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, funduðu í dag í Jerúsalem. Samsett mynd

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddu um að sameina krafta sína gegn Íran á fundi þeirra í Jerúsalem í dag.

Þá áttu þeir einnig samtal um hvernig stjórnunarhættir á Gasasvæðinu yrðu að stríði loknu.

Blinken lenti í Ísrael í morgun til að þrýsta á um vopnahlé á Gasasvæðinu eftir að ríkisstjórn hans kallaði eftir endalokum stríðsins í Líbanon „eins fljótt og auðið er“.

Þetta er ellefta ferð hans til Mið-Austurlanda síðan Hamas réðust á Ísrael fyrir rúmu ári síðan.

Þakkaði Bandaríkjunum fyrir stuðning

Í tilkynningu frá forsætisráðuneyti Ísraels segir að á fundi Blinkens og Netanjahú fyrr í dag hafi Íran komið til tals en landið hefur staðið þétt við bak Hamas- og Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna í stríði þeirra við Ísrael.

Segir í tilkynningunni að rætt hafi verið um að Ísrael og Bandaríkin myndu sameina krafta sína gegn Íran.

Þá segir enn fremur að Netanjahú hafi þakkað utanríkisráðherranum fyrir þann stuðning sem Ísrael hefur fengið frá Bandaríkjunum í baráttu þeirra gegn Íran.

Vonast til að gíslum verði sleppt

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins kemur einnig fram að Blinken og Netanjahú hafi rætt um stjórnunarhætti á Gasasvæðinu þegar stríði Ísraels við Hamas lýkur.

Kemur þá fram að forsætisráðherrann hafi lagt áherslu á að dauðsfall leiðtoga Hamas-liða, Yahya Sinwar, gæti haft þau áhrif að gíslunum sem Hamas hefur haft í haldi frá innrás þeirra inn í Ísrael þann 7. október í fyrra verði sleppt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert