Staða Úkraínu veltur á kosningum vestanhafs

Selenskí telur að staða stuðnings Banda­ríkj­anna við hernaðarrekst­ur Úkraínu muni …
Selenskí telur að staða stuðnings Banda­ríkj­anna við hernaðarrekst­ur Úkraínu muni skýr­ast skömmu eft­ir kosn­ing­ar vestanhafs. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, bindur vonir við að viðræður um aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu (NATO) haldi áfram að loknum forsetakosningum í Bandaríkjunum.

„Við vonumst eftir jákvæðum viðbrögðum frá Bandaríkjunum að kosningum loknum. Ekki vegna nýs forseta heldur einungis vegna þess að athyglin er öll á kosningunum,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Eigi ekki vopn til þess að stöðva Pútín

Selenskí telur að Bandaríkin vilji ekki taka „óþarfa áhættu“ að svo stöddu en kveðst hafa trú á því að Frakkland og Bretland styðji aðild Úkraínu að NATO. Aftur á móti sagði hann yfirvöld í Þýskalandi efins.

Það sagði hann vera af ótta við viðbrögð yfirvalda í Rússlandi.

Við fall Sovétríkjanna voru kjarnorkuvopn Úkraínu gerð upptæk, en á þeim tíma bjó landið yfir þriðja stærsta kjarnorkuvopnabúri í heiminum.

„Við gáfum frá okkur kjarnorkuvopnin. Við fengum ekki aðild að NATO. Við fengum einungis stríð og fjölda fórnarlamba, í dag er aðeins ein leið úr átökunum,“ sagði hann en þvertók fyrir þá hugmynd að eignast kjarnorkuvopn að nýju.

„Við þurfum NATO því við höfum ekki vopnin til þess að stöðva Pútín.“

Átti jákvæðan fund með Trump

Spurður hvort hann teldi yfirvöld í Rússlandi tilbúin að semja um frið sagði Selenskí það velta á kosningunum í Bandaríkjunum.

Hann sagði að staða stuðnings Bandaríkjanna við hernaðarrekstur Úkraínu myndi skýrast skömmu eftir kosningar.

„Þau munu ekki bíða til janúar,“ sagði hann, en þá tekur nýkjörinn forseti formlega við keflinu.

Hann kvaðst hafa átt góða fundi með báðum forsetaframbjóðendum, Donald Trump og Kamölu Harris, og enn fremur að fundur hans með Trump hefði verið „jákvæður“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert