Í dag eru sléttar tvær vikur þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu. Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er kominn á fleygiferð í kosningabaráttu fyrir Kamölu Harris og Donald Trump steikti franskar kartöflur á McDonald's.
Þetta kemur fram í yfirferð Hermanns Nökkva Gunnarssonar, blaðamanns á mbl.is og Morgunblaðinu, í Spursmálum í dag.
Samkvæmt RealClearPolitics þá leiðir Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, í öllum sjö sveifluríkjunum en þó er fylgismunurinn mjög lítill.
Í Georgíu er munurinn mestur og þar er Trump með 1,8 prósentustiga forskot á Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, en í Wisconsin er hann aðeins með 0,2 prósentustiga forskot á Harris.
Miðað við mælingar fengi Trump 312 kjörmenn en Harris fengi 226 kjörmenn.
Til þess að sigra þá þarf að fá 270 kjörmenn.
Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, heimsótti McDonald’s í Bucks-sýslu í Pennsylvaníu um helgina en ástæðan er sú að hann hefur haldið því fram að Harris hafi logið því að hún hafi starfað á McDonalds í háskóla.
Trump hefur krafist þess að Harris færi sönnur fyrir því að hún hafi starfað hjá veitingakeðjunni, sem hún hefur ekki gert, en hann hefur heldur ekki fært neinar sannanir fyrir því að hún hafi ekki starfað á McDonalds.
Myndir og myndskeið af heimsókn Trumps á McDonald's hefur farið eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum og hægt er að sjá myndskeið af atvikinu í spilaranum að ofan.
Þá hefur Obama verið á ferð og flugi í kosningabaráttunni fyrir Harris. Í Las Vegas í Nevada sagði Obama ljóst að mjótt væri á munum.
„Þetta verður jafnt vegna þess að margir Bandaríkjamenn eiga enn erfitt uppdráttar. Sem þjóð þá höfum við gengið í gegnum margt á undanförnum árum,“ sagði Obama og vísaði meðal annars í Covid-faraldurinn.
„Ég er hér í dag af mjög mikilvægri ástæðu. Og það er til þess að sjá til þess að ekki aðeins þið kjósið, heldur að allir sem þið þekkið kjósi,“ sagði Obama.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi og leiðtogi Sósíalistaflokks Íslands í komandi þingkosningum, sat fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála sem sýndur var fyrr í dag.
Upptöku af þættinum má sjá í spilaranum hér að neðan, á Spotify og YouTube og er öllum aðgengileg.