Ráðgert er að Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, mæti í hlaðvarp Joe Rogans á föstudaginn. Rogan heldur úti vinsælasta hlaðvarpinu á streymisveitunni Spotify.
Dagblaðið New York Times og aðrir miðlar vestanhafs greina frá.
Tveir háttsettir starfsmenn í kosningateymi Trumps hafa staðfest við New York Times að Trump muni fara til Texas, þar sem Rogan er búsettur og heldur úti hlaðvarpinu, á föstudag til að mæta í þátt Rogans.
Í raun má segja að viðtalið verði hápunkturinn á hlaðvarpsherferð Trumps en hann hefur að undanförnu mætt í hlaðvörp sem höfða sérstaklega til ungra karlmanna.
Kannanir benda til þess að Trump sé með mikinn stuðning meðal ungra karlmanna en aftur á móti eru þeir ekki jafn líklegir og aðrir hópar til þess að mæta á kjörstað.
Tugir milljóna manna hlusta á Rogan og er stór hópur þeirra ungir karlmenn.
Þátturinn er það vinsæll að Trump er tilbúinn að leggja leið sína til Texas, sem er ekki sveifluríki, á lokasprettinum í kosningabaráttunni til þess að mæta í hlaðvarpið.
Fyrr á þessu ári sagði Rogan að Robert F. Kennedy yngri, sem þá var í framboði sem óflokksbundinn frambjóðandi, væri sá eini í framboði sem honum þætti skynsamlegur.
Trump skaut þá á Rogan og skrifaði á samfélagsmiðla:
„Það verður áhugavert að sjá hversu hátt Joe Rogan verður púaður næst þegar hann kemur inn í UFC-hringinn.“
Nýlega sagði Trump þó að Rogan væri „góður gæi“.
Á Spotify eru 14,5 milljónir sem fylgja hlaðvarpinu og á YouTube eru 17 milljónir fylgjenda. Spotify segir hlaðvarpið vera það vinsælasta á streymisveitunni.