Héraðsdómur í Nuuk í Grænlandi mun í dag ákveða hvort aðgerðasinninn Paul Watson verði áfram í gæsluvarðhaldi.
Gæsluvarðhaldið var framlengt í byrjun mánaðarins og á að renna út í dag.
„Að sjálfsögðu munum við fara fram á að honum verði sleppt úr haldi. En því miður, ef maður á að vera raunsær, þá er hugsanlegt að það gerist ekki,“ sagði Julie Stage, lögmaður Watsons.
Watson var handtekinn í Nuuk í júlí á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem alþjóðalögreglan Interpol gaf út að beiðni Japana. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan á meðan dönsk stjórnvöld hafa fjallað um framsalskröfu Japana.
Handtökutilskipun Japana á hendur Watson var gefin út árið 2010 eftir að hann reyndi að koma í veg fyrir hvalveiðar japanskra veiðimanna á Suðurheimskautinu.