Fann flöskuskeyti Íslendings

Suður-Noregur er rómaður fyrir náttúrufegurð, ekki síst smábærinn Mandal en …
Suður-Noregur er rómaður fyrir náttúrufegurð, ekki síst smábærinn Mandal en eyjan Hille er þar úti fyrir ströndum. Þar fannst 24 ára gamalt flöskuskeyti tíu ára gamallar stúlku frá Akureyri nýverið. Ljósmynd/Wikipedia.org/Arnstein Rønning

„Ég hugsaði með mér að nú hefði ég loksins fundið fjársjóð,“ segir Erle Tronstad Sagebakken, fjórtán ára gömul stúlka frá Lindesnes í Suður-Noregi, í samtali við staðarblaðið Lindesnes Avis.

Erle dvaldi í sumarbústað á eynni Hille, úti fyrir sumarparadísinni Mandal, skammt frá Kristiansand, nú við upphaf haustfrís norskra gagnfræðaskóla, og var í göngutúr með fjölskyldunni við litla vík á Hille sunnanverðri þegar hún kom auga á plastflösku milli tveggja steina – gamla og lúna gosflösku sem engin leið var að sjá hvaða gos hafði í öndverðu geymt.

„Kine frænka mín segir alltaf að nú skulum við fara í fjársjóðsleit en ég hef aldrei fundið neinn fjársjóð,“ segir Erle við blaðamann Lindesnes-blaðsins.

„Nú veit ég að þú hefur fundið það!“

Hún stökk því til og tók flöskuna upp en hún reyndist þá aðeins innihalda eina handskrifaða örk, ekki beint fjársjóð – það fer þó eftir því hvernig á er litið.

„Ég sá að bréfið var á ensku og tók það með heim,“ segir Erle frá. Við nánari skjalarannsókn þar reyndist um að ræða bréf, dagsett 10. júní árið 2000, og undir það ritaði nafn sitt Íris Eva. Bréfið hljóðaði hins vegar svo í íslenskri þýðingu:

„Halló. Ég heiti Íris og er tíu ára. Ég er á ferðalagi með fjölskyldu minni með [ferjunni] Norrænu, við erum á leið til Danmerkur frá Íslandi þar sem ég á heima. Heimabærinn minn heitir Akureyri. Ég vona að einhver finni bréfið í flöskunni. Nú veit ég að þú hefur fundið það! Sendu mér póstkort og láttu mig vita að það sé fundið.“

Erle gat lesið bréfið og skildi enskuna vandræðalaust en þótti um leið merkilegt að flaskan hefði flotið um Atlantshafið í 24 ár og skilað sér að mestu heil í hennar hendur. Nógu heil til að bréf Írisar varðveittist alltént.

Nú 34 ára móðir

Eftir öll þessi ár var Erle ekkert á því að senda póstkort heldur leitaði til móður sinnar, Lise Tronstad Sagebakken, þar sem móðirin er á Facebook – samskiptamiðli sem heimsbyggðin hafði ekki heyrt um árið 2000 þegar fólk sendi tölvupóst sín á milli og vafraði um misfrumstæðar vefsíður, notaðist við spjallhópa og tölvupóstlista og sumir voru jafnvel nýkomnir af IRC-inu, þeim gamla samskiptamiðli sem framhalds- og háskólafólk sogaðist unnvörpum inn í árið 1994 og áfram.

Viti menn, Íris Eva fannst á Facebook, nú 34 ára gömul tveggja dætra móðir sem enn býr á Akureyri. Og hún mundi eftir skeytinu. „Hæ. Já, við mamma skrifuðum þetta á ferðalagi fyrir 24 árum,“ svaraði hún móður Erle um hæl og þakkaði henni fyrir að hafa samband og láta vita af fundi skeytisins aldarfjórðungsgamla.

Erle er kampakát með fundinn þótt þar hafi ekki farið peningalegur fjársjóður. Hefur hún hugsað sér að ramma bréf Írisar Evu inn og hafa uppi á vegg í sumarbústað fjölskyldunnar til minja um fund flöskuskeytisins sem sjósett var af þilfari Norrænu 10. júní sumarið 2000.

Lindesnes Avis (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert