Norski forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre vill gera þá lagabreytingu að aldurstakmark samfélagsmiðlanotkunar norskra ungmenna verði fimmtán ár í stað þeirra þrettán ára sem nú er lágmarksaldurinn til notkunar miðlanna.
Lofar ráðherra því enn fremur að nýjum reglum verði fylgt eftir.
Raunin er önnur nú þegar 53 prósent níu ára barna í Noregi hafa notendasíður á samfélagsmiðlum, 58 prósent tíu ára barna og 72 prósent ellefu ára barna.
„Með þessu sendum við skýr skilaboð. Börn ber að vernda fyrir skaðlegu efni samfélagsmiðla,“ segir Støre við norska dagblaðið VG.
„Þarna eru stórir tæknirisar á móti litlum barnaheilum. Við gerum okkur ljóst að á brattann er að sækja og hér toga sterk öfl á móti.“
Forsætisráðherra heimsótti nýlega félagsskap foreldra í Stavanger sem berst fyrir strangari reglum um netnotkun yngstu kynslóðarinnar og hélt þangað í félagi við Kjersti Toppe, barna- og fjölskyldumálaráðherra.
Í foreldrahópnum er sálfræðingurinn Eline Fahret Born sem í vor hóf baráttu sína fyrir að lágmarksaldurinn yrði sextán ár.
Safnaði hún í þessu skyni rúmum 11.000 undirskriftum. Hún nær því vilja sínum nánast fram með fimmtán ára takmarkinu sem nú er handan hornsins.
„Ég verð að játa að þetta eru frábærar fréttir. Fari aldursmarkið upp í fimmtán ár og foreldrar haldi sig við það hefur það gríðarmikið að segja í lífi barns,“ segir sálfræðingurinn um breytinguna sem fram undan er.
Björninn er þó ekki unninn þar sem ríkisstjórnin getur breytt lögum um aldurslágmark þess sem sækja má persónuupplýsingar til án þess að fullljóst sé hvernig best sé að framfylgja þeim nýju ákvæðum.