Héraðsdómur í Nuuk á Grænlandi féllst í dag á kröfu grænlensku lögreglunnar um að aðgerðasinninn Paul Watson sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 13. nóvember. Watson hefur setið í varðhaldi í Nuuk frá því í júlí.
Réttarsalurinn í Nuuk var þéttsetinn í morgun þegar málið var tekið fyrir, að því er kemur fram á vef blaðsins sermitsiaq.ag. Fram kemur þar að saksóknari grænlensku lögreglunnar taldi nauðsynlegt að hafa Watson áfram í gæsluvarðhaldi vegna þess að ella væri hætta á að hann færi úr landi.
Watson var handtekinn þegar skip hans kom til Nuuk í júlí á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem alþjóðalögreglan Interpol gaf út árið 2012 að beiðni Japans. Japanar hafa krafist þess að Watson verði framseldur þangað til að svara til saka fyrir aðgerðir gegn japönskum hvalveiðiskipum árið 2010. Danska dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki tekið afstöðu til framsalskröfunnar.
Julie Stage, lögmaður Watsons, lýsti því yfir í morgun að úrskurðurinn yrði kærður til landsréttar í Grænlandi. Hún sagðist í samtali við AFP-fréttastofuna vera að undirbúa áfrýjun til hæstaréttar Danmerkur vegna fyrri gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir Watson.
Takeshi Iwaya, dómsmálaráðherra Japans, tjáði sig nýlega um mál Watsons og sagði að það fjallaði um atvik á sjó en ekki hvalveiðimál.
Japönsk stjórnvöld saka Watson um að hafa valdið því að japanskur sjómaður slasaðist þegar belgjum fullum af þránuðu smjöri var varpað á hvalveiðiskipið Shonan Maru 2 í febrúar 2010.
Lögmenn Watsons fullyrða hins vegar að hann sé saklaus og hafa lagt fram myndband sem þeir segja sýna að umræddur sjómaður hafi ekki verið á þilfari japanska skipsins þegar belgnum var varpað. Dómari í Nuuk hafnaði því að myndbandið yrði sýnt í réttarsalnum.
Watson er búsettur í París. Tugir stuðningsmanna hans komu saman framan við ráðhús í París í morgun og kröfðust þess að Watson yrði látinn laus. Franskir embættismenn hafa hvatt dönsk stjórnvöld til að láta Watson lausan.