Gagnrýndi meint ummæli Trumps um Hitler

Harris og Trump. Fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps segir hann skilgreiningu á …
Harris og Trump. Fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps segir hann skilgreiningu á fasista. AFP/Patrick T. Fallon

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, gagnrýndi mótframbjóðanda sinn, Donald Trump, harðlega fyrir meintar athugasemdir sem hann lét falla í forsetatíð sinni og voru birtar fyrr í vikunni í The Atlantic og í The New York Times

Í viðtali við The Atlantic sagði John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps, frá því að í forsetatíð sinni hafi Trump oft talað fallega um Adolf Hitler og óskað þess að fleiri herforingjar hans væru eins og þeir sem Hitler hafði. 

Kelly lýsti því að Trump hefði oft orðið þreyttur á hersforingjum sínum og sagt þá ólöghlýðna. 

John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps.
John Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps. AFP

Vill her sem er hliðhollur sjálfum sér

Kamala Harris brást við þessum athugasemdum í gær og gagnrýndi forsetann fyrrverandi harðlega. 

„Það er mjög bagalegt og stórhættulegt að Donald Trump skuli bera fyrir sig Adolf Hitler, manninn sem ber ábyrgð á dauða sex milljóna gyðinga og hundruð þúsunda Bandaríkjamanna,“ sagði Harris og hélt áfram:

„Í gær [fyrradag] fengum við að vita að fyrrverandi starfsmannastjóri Trumps, John Kelly, staðfesti að í forsetatíð Donalds Trumps hefði hann viljað hershöfðingja eins og Adolf Hitler. Donald Trump sagði þetta af því að hann vill ekki her sem er hliðhollur stjórnarskrá Bandaríkjanna, hann vill her sem er hliðhollur honum.“

Skilgreining á fasista

Í viðtali við The New York Times sagði Kelly að Trump væri skilgreiningin á fasista.

„Forsetinn fyrrverandi er vissulega hægrisinnaður. Hann er hrifinn af völdum og dáist að einræðisherrum - hann hefur sagt það. Hann fellur klárlega undir almenna skilgreiningu á fasista,“ sagði Kelly. 

Steven Cheung, talsmaður kosningateymis Trumps, og Alex Pfeiffer, talsmaður Trumps, segja þessar frásagnir ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum og að Trump hafi aldrei látið þessi orð falla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert