Umdeilt frumvarp í dönsku fánamáli

Verði frumvarp danska dómsmálaráðuneytisins að lögum verður bannað að flagga …
Verði frumvarp danska dómsmálaráðuneytisins að lögum verður bannað að flagga öðrum þjóðfánum en Norðurlandanna og Þýskalands í Danmörku. Ljósmynd/Norden.org

Nái frumvarp, sem nú liggur fyrir danska þinginu, fram að ganga verður bannað að flagga öðrum þjóðfánum þar í landi, án þess að sérstakt leyfi liggi fyrir, en fánum Norðurlandanna og Þýskalands. Með fánum Norðurlanda telst sá grænlenski vitaskuld, enda heyrir Grænland undir dönsku krúnuna.

Er frumvarpið afurð rökræðu sem nú er orðin sex ára gömul og hófst með því að Martin nokkur Hedegård flaggaði þjóðfána Bandaríkjanna í garði sínum í Nørre Bjert, skammt frá Kolding, árið 2018 en tilefnið var heimsókn þarlendra til fjölskyldunnar.

Fyrir þetta var hann kærður til lögreglu þar sem rúmlega aldargömul tilskipun, frá 1915, bannar að þjóðfánum erlendra ríkja sé flaggað á danskri grundu. Þar sem um fordæmisgefandi mál var talið að ræða gekk það alla leið til Hæstaréttar Dana þar sem Hedegård var sýknaður í fyrra.

Táknfræðipólitík af síðustu sort

Nú hefur framangreint frumvarp danska dómsmálaráðuneytisins verið lagt fram að undirlagi Sørens Espersens þingmanns Danmerkurdemókratanna og verður tekið til fyrstu umræðu í dag.

Carsten Hove, lögmaður sem annaðist málsvörn Hedegård fyrir dómi, kallar frumvarpið táknfræðipólitík af síðustu sort. „Ég fæ ekki séð að þessi lög muni þjóna nokkrum tilgangi. Þau ganga í berhögg við skuldbindingar Danmerkur um vernd tjáningarfrelsisins svo þau munu ekki standast,“ segir Hove við danska ríkisútvarpið DR.

Telur hann einsýnt að Hæstiréttur muni virða lögin að vettugi og er mættur til Kaupmannahafnar þar sem hann mun fylgjast með umræðu þingsins um málið, en hún hefst nú klukkan 13 að dönskum tíma, 11 að íslenskum.

Fáni sem allir elska

Espersen óttast ekki að frumvarpið geti af sér lög sem stangist á við skyldur Danmerkur að alþjóðarétti. „Við treystum lögfræðingum ríkisstjórnarinnar, ég geti ekki ímyndað mér að stjórnvöld okkar leggi fram lagafrumvarp sem ekki stenst lög,“ segir hann og hafnar enn fremur ummælum Hove um táknfræðipólitík.

„Fjölda tákna sem hafa raunverulega merkingu er til að dreifa og Dannebrog [danski þjóðfáninn] er eitt þeirra,“ segir þingmaðurinn sem er menningarfulltrúi Danmerkurdemókratana og bætir því við að frumvarpið sé í raun tákn um samstöðu þjóðarinnar. „Við eigum okkur fána sem allir elska,“ segir Espersen.

Flokkur hans hefur verið orðaður við hægrilýðhyggju (d. højrepopulisme) en Danmerkurdemókratana stofnaði Inger Støjberg sem gert var að segja af sér þingmennsku í desember 2021 fyrir að hafa veitt ólögmætar leiðbeiningar sem ráðherra útlendingamála fyrir Venstre-flokkinn og logið að þinginu. Hafa Danmerkurdemókratarnir laðað til sín fjölda fyrrverandi flokksmanna Danska þjóðarflokksins frá stofnun þess fyrrnefnda sumarið 2022.

„Þannig hefur það verið í rúm hundrað ár“

Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra segir um frumvarpið sem runnið er undan rifjum hans ráðuneytis að þjóðfáninn sé þýðingarmesta tákn Danmerkur.

„Hann er tákn sem þjappar okkur saman sem þjóð. Ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að Dannebrog skuli, sem tákn, njóta sérstöðu í Danmörku. Ég er þeirrar skoðunar að sú sérstaða kalli á reglur um fánanotkun svo reistar séu skorður við því að hægt sé að flagga hvaða þjóðfána sem er. Þannig hefur það verið í rúm hundrað ár – og þannig skal það vera áfram,“ segir dómsmálaráðherra.

DR

Berlingske

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert