Barn sent heim af læknavakt lést

Barn, sem heilsugæslan í Larvik sendi heim eftir að það …
Barn, sem heilsugæslan í Larvik sendi heim eftir að það var flutt þangað með sjúkrabifreið, lést átján klukkustundum síðar í kjölfar þess að hafa fengið einkenni er bentu til hjartastopps. Ljósmynd/Wikipedia.org/J.P. Fagerback

Fylkisstjórinn í Vestfold og Telemark í Noregi, Statsforvalteren eins og embættið heitir nú, hefur hafið rannsókn á því hvernig andlát barns bar að höndum í ágúst, átján klukkustundum eftir að það var sent heim af heilsugæslustöðinni í Larvik.

Voru tildrög málsins þau að barnið var flutt með sjúkrabifreið að heiman og á læknavaktina, en af persónuverndarástæðum er hvorki aldur þess né sjúkdómsástand gefið upp.

Á læknavaktinni gekkst barnið undir skoðun áður en forráðamenn þess voru sendir heim með það í kjölfar þess að þeir höfðu fengið lyf afhent og verið beðnir að hafa samband við minnsta tilefni (n. lav terskel). Átján klukkustundum síðar fékk barnið einkenni sem virtust benda til hjartastopps og lést þrátt fyrir að hafa hlotið fyrstu hjálp.

Kjarnasjúkraskrá ekki send sjúkraflutningafólki

„Þetta er flókið, sorglegt og vont mál, þannig er það alltaf þegar einhver deyr,“ segir Guro Winsvold, heilbrigðisfulltrúi bæjarstjórnar Larvikur, í samtali við dagblaðið Østlands-Posten. „Það er ekki margt sem ég get sagt um málið, það er í rannsókn.“

Það var heilsugæslan sjálf sem tilkynnti norska heilbrigðiseftirlitinu um atburðinn og kvað það upp úrskurð um að rannsókn færi fram og beinist hún hvort tveggja að heilsugæslunni og neyðarlínunni AMK í umdæminu, en síðarnefndi aðilinn mat aðstæður sem svo að sjúkraflutningafólk þyrfti ekki á aðgangi að kjarnasjúkraskrá (n. kjernejournal) barnsins að halda og sendi hana því ekki með rafrænum hætti í sjúkrabifreiðina.

Höfðu engar upplýsingar

Reyndist skráin geyma upplýsingar um heilsufar barnsins sem hefðu getað skipt sköpum. Úr því hún var ekki send hafði áhöfn bifreiðarinnar engar upplýsingar að færa móttökustarfsfólki heilsugæslunnar við komu þangað.

Erik Nordberg, deildarstjóri móttökudeildar Sjúkrahússins í Vestfold, sem ber ábyrgð á þjónustu AMK í Vestfold og Telemark, vill enn sem komið er ekki tjá sig um málið á þeirri forsendu að rannsókn þess standi yfir.

Østlands-Posten (læst áskriftargrein)

NRK

VG

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert