Menendez-bræður gætu losnað úr fangelsi

Fangamynd af bræðrunum á síðasta ári. Lyle er til vinstri …
Fangamynd af bræðrunum á síðasta ári. Lyle er til vinstri en Erik til hægri. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lyle og Erik Menendez, bræðurnir sem voru dæmdir fyrir að hafa myrt foreldra sína með köldu blóði árið 1989, gætu losnað úr fangelsi eftir að saksóknari sagðist í gær ætla að biðja dómara um að endurskoða dómana sem þeir hlutu.

Bræðurnir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn fyrir að hafa skotið foreldra sína til bana á heimili þeirra í Beverly Hills.

George Gascon er hann tilkynnti ákvörðun sína í gær.
George Gascon er hann tilkynnti ákvörðun sína í gær. AFP/Apu Gomes

Á þeim tíma sögðu saksóknarar að bræðurnir hefðu ákveðið að drepa þau Jose og Mary Louise „Kitty“ Menendez, til að komast fyrr yfir 14 milljóna dollara arf, sem jafngildir um tveimur milljörðum króna, sem þeir áttu að fá.

Verjendur bræðranna sögðu aftur á móti að þeir hefðu orðið fyrir langvarandi kynferðisofbeldi af hálfu föður þeirra. Á endanum hefðu þeir misst stjórn á sér og drepið foreldra sína.

Diane Hernandez, frænka Kitty Menendez, Joan VanderMolen, systir Kitty Menendez, …
Diane Hernandez, frænka Kitty Menendez, Joan VanderMolen, systir Kitty Menendez, og Arnold VanderMolen, frændi hennar, bregðast við niðurstöðu saksóknara. AFP/Apu Gomes

Vill að nýr dómur verði kveðinn upp

„Eftir að hafa skoðað röksemdafærslurnar mjög vandlega…tel ég að samkvæmt lögunum sé viðeigandi að kveða upp nýjan dóm og ég ætla að mæla með því að við dómstólinn á morgun,“ sagði George Gascon, saksóknari í Los Angeles-sýslu, í gær.

Gascon sagðist ætla að mæla með því að bræðurnir yrðu dæmdir fyrir morð, en ákæra þess efnis felur í sér 50 ára til lífstíðarfangelsi.

„Miðað við að þeir voru yngri en 26 ára á þeim tíma þegar glæpirnir voru framdir gætu þeir strax átt möguleika á reynslulausn,“ sagði hann.

Erik og Lyle Menendez í dómsalnum á sínum tíma.
Erik og Lyle Menendez í dómsalnum á sínum tíma. AFP/Mike Nelson

Sérstakar kringumstæður

Hann kveðst ekki leggja blessun sína yfir ofbeldisfull morð Menendez-bræðranna, sem voru 19 og 21 árs þegar þau voru framin, en telur að kringumstæðurnar hafi verið sérstakar.

„Ef þú ert misnotaður þá er rétta leiðin að tala við lögregluna og fá hjálp. En ég get skilið það að stundum verður fólk örvæntingarfullt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert