Þrælaviðskipti gætu komið Bretum í bobba

Karl Bretakonungur við opnunarræðu sína á leiðtogafundi breska samveldisins.
Karl Bretakonungur við opnunarræðu sína á leiðtogafundi breska samveldisins. AFP

„Við getum ekki breytt fortíðinni,“ sagði Karl Bretakonungur er hann ávarpaði leiðtoga breska samveldisins á leiðtogafundi sem fer fram á Samóaeyjum um þessar mundir. 

Samkvæmt BBC hefur orðrómur verið á kreiki um að einhverjir leiðtogar þjóða innan samveldisins hygðust fara gegn óskum bresku ríkisstjórnarinnar og efna til „þýðingarmikils samtals“ um hlut Bretlands í þrælaviðskiptum á árum áður.

Breska samveldið er samband 56 fullvalda ríkja, sem flestöll eru fyrrverandi nýlendur breska heimsveldisins.

Ræða sársaukafulla sögu af „hreinskilni og virðingu“

Konungurinn nefndi ekki þrælaviðskipti fortíðarinnar með berum orðum er hann ávarpaði leiðtoga ríkjanna en talaði um að mikilvægt væri að læra af mistökum fortíðar og „finna skapandi leiðir til að leiðrétta ójöfnuð sem enn er við lýði“.

Sagði konungurinn sársaukafulla sögu landanna mörgum enn ofarlega í huga en að þjóðirnar þekktu og skildu hvor aðra og gætu því rætt þessi erfiðu málefni af hreinskilni og virðingu.

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar hafði gefið út á dögunum að Karl konungur og forsætisráðherrann Keir Starmer myndu ekki biðjast afsökunar á syndum fortíðarinnar, en til þess þyrfti samþykki ríkisstjórnarinnar. 

Getur opnað á bótaskyldu

Biðjist Bretar afsökunar opnar það á mögulega bótaskyldu Bretlands gagnvart þeim þjóðum sem liðu hvað mest fyrir þrælaviðskipti fyrri alda.

Áköll um formlega afsökunarbeiðni Bretlands hafa engu að síður ágerst að undanförnu og er búist við því að einhverjir leiðtogar muni efna til umræðna um bótarétt sinn og annarra þjóða.

Auk fjárbóta eru ýmsar leiðir til að bæta þjóðum upp misrétti fortíðarinnar en þar má nefna sem dæmi skuldaaflausnir, fjárhagsstuðning, aðstoð við uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfa, uppbyggingu safna- og menningarstofnana og opinberar afsökunarbeiðnir.

Starmer hefur sagst vilja einbeita sér að málefnum líðandi stundar á fundinum þrátt fyrir að ekki megi gleyma sögunni. Fjármálaráðherra Bretlands, Rachel Reeves, segir fjárbætur til fyrrum nýlenduþjóða ekki koma til greina í þessari ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert