Vopnahlésviðræður hefjast á ný

Aðstandendur og stuðningsmenn gíslanna á Gasa þrýsta á ríkisstjórn Benjamín …
Aðstandendur og stuðningsmenn gíslanna á Gasa þrýsta á ríkisstjórn Benjamín Netanjahú að fallast á vopnahlé. AFP

Samningaviðræður um mögulegt vopnahlé og lausn gísla á Gasasvæðinu munu hefjast að nýju í höfuðborg Katar, Doha, á næstu dögum.

Samkvæmt BBC mun sendinefnd Ísraels ferðast til Doha á sunnudaginn. 

Anthony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna ferðaðist til Ísrael á miðvikudag og er það í ellefta sinn sem ráðherrann ferðast til Mið-Austurlanda á síðastliðnu ári.

Næstu skref Hamas óljós

Ráðamenn í Bandaríkjunum eru vongóðir um að dauði leiðtoga stjórnmálaarms Hamas, Yahya Sinwar, í síðustu viku verði til þess að samkomulag náist loks um að binda enda á stríðið á Gasasvæðinu.

Hamas-samtökin hafa aftur á móti sagt samninganefnd Ísraels standa í vegi fyrir því að samningar náist.

Sagði Blinken að með dauða Sinwar væri raunverulegt tækifæri fyrir hendi að ná gíslunum heim og ná samkomulagi um að Ísrael dragi hersveitir sínar út af Gasa, Hamas-samtökin verði ekki endurreist og Palestínumenn geti byrjað að endurbyggja líf sín.  

Utanríkisráðherra Katar, Sheikh Mohammaed bin Abdulrahaman Al Thani, sagði samninganefnd Katar hafa átt í samskiptum við Hamas eftir að Sinwar var felldur en að ekki lægi fyrir hver næstu skref samtakanna yrðu.

Fyrri viðræður fóru í vaskinn

Fyrri viðræður um vopnahlé byggðu á tillögu Bandaríkjaforseta, Joe Biden. Var þar lagt til plan í þremur liðum sem myndi hefjast á sex vikna vopnahléi á Gasa þar sem hersveitir Ísraels myndu hverfa á burt frá íbúasvæðum.

Næsta skref yrði aukning mannúðaraðstoðar á Gasa auk þess sem Ísrael myndi skipta á palestínskum föngum fyrir ísraelsku gíslana. Þriðja skrefið yrði varanleg stöðvun átaka og víðtæk uppbygging á Gasa. 

Hamas-samtökin tóku vel í áformin en viðræður stöðvuðust vegna kröfu Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, um veru ísraelska hersins á landamærum Gasa og Egyptalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert