Gera dauðaleit að hágæða cheddar-osti

Einstaklingar skulu hafa samband við lögregluna í London ef þá …
Einstaklingar skulu hafa samband við lögregluna í London ef þá grunar að þeim hafi verið seldur stolinn cheddar-ostur. Samsett mynd

Breski stjörnukokkurinn Jamie Oliver hefur biðlað til aðdáenda sinna og ostaunnenda á Instagram að hafa augun opin og hjálpa lögreglu við að góma svindlara sem urðu sér úti um 22 tonn af enskum og velskum cheddar-osti.

Náðu svindlararnir að plata fyrirtækið Neals Yard Dairy, sem er dreifingaraðili fyrir breskan handverksost, til að veita sér ostinn og hefur Oliver kallað atburðinn ósvífið rán.

Hefur þó fyrirtækið greitt framleiðendum ostsins upphæðina sem þeir urðu af en fram hefur komið að osturinn sé um það bil 300.000 punda virði sem samsvarar tæpum 54 milljónum króna.

Sagði Oliver fylgjendum sínum að vera á varðbergi fyrir flutningabílum sem væru að bjóða upp á hágæða ost á mjög ódýru verði.

Héldu að svindlararnir væru heildsalar

Hefur verið greint frá því að Neals Yard Dairy hafi flutt ostinn til aðila sem fyrirtækið taldi að væru lögmætir heildsalar fyrir franskt smásölufyrirtæki áður en upp komst að um svindlara væri að ræða.

Vinnur nú fyrirtækið með lögreglunni í London hörðum höndum að því að bera kennsl á þjófana en lögreglan hefur gefið það út enginn hafi verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er.

Þá hefur verið biðlað til allra ostasölumanna víðs vegar um heiminn að hafa samband ef þá grunar að þeim hafi verið seldur stolinn ostur, þá sérstaklega cheddar-ostur sem þráður er bundinn um og er um 10 eða 24 kíló að þyngd og auk þess ekki með merkimiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert