Öll neysla áfram bönnuð

Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra Miðflokksins kynnti fíkniefnastefnu norskra stjórnvalda í …
Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra Miðflokksins kynnti fíkniefnastefnu norskra stjórnvalda í gær, en fyrir fram hafði ekki verið búist við miklum breytingum af hálfu ríkisstjórnar Støre. Ljósmynd/Dómsmála- og viðbúnaðarráðuneytið

„Í tíð sitjandi ríkisstjórnar mun öll neysla fíkniefna áfram verða bönnuð,“ sagði norski dómsmálaráðherrann Emilie Enger Mehl á blaðamannafundi í gær, þegar ríkisstjórn landsins kynnti fíkniefnastefnu sína, rusreformen sem svo kallast.

Vísaði ráðherra til aukinnar neyslu kókaíns, afbrotastarfsemi og almenns skorts á öryggi í samfélaginu og boðaði nýjar ákvarðanir fyrir páska um refsingar fyrir að nota eða hafa fíkniefni í fórum sér. Lagði Mehl áherslu á að ríkisstjórnin hygðist líta til leiða á borð við aukið eftirlit með neyslu ungmenna og svokallaða vímuefnasamninga, eða ruskontrakter, fyrir sama aldurshóp auk skýrari reglna um hvað lögreglu leyfðist við líkamsleit.

Sagði ráðherra ríkisstjórnina mundu leggja fram tillögu um að binda það í lög að fíklum skyldi að meginstefnu til ekki refsa fyrir neyslu sína, en því harðar gengið fram í refsingum gagnvart bakmönnunum svokölluðu, þeim sem önnuðust fjármögnun, innflutning og dreifingu.

Frá hegningu til hjálpar

Fyrir fram hafði ekki verið gert ráð fyrir miklum breytingum á stefnu stjórnar Jonasar Gahr Støre í þessum efnum, einkum í kjölfar hinna umdeildu breytingatillagna ársins 2021 sem runnar voru undan rifjum fjölmenns starfshóps þáverandi forsætisráðherra, Ernu Solberg, sem skipuð hafði verið árið 2018 til að fara yfir málin.

Spratt skipun hópsins af ákvörðun Stórþingsins frá því í desember 2017 um að fíkniefnaneyslu skyldi mætt með aðstoð og meðhöndlun fremur en refsingum, í raun skyldi málaflokkurinn að stórum hluta færast frá refsivörslukerfinu yfir til heilbrigðiskerfisins.

Frá hegn­ingu til hjálp­ar (n. Fra straff til hjelp) var yf­ir­skrift skýrslu hóps­ins sem falið var að setja fram til­lögu um breyt­ing­ar á norskri fíkni­efna­lög­gjöf og svara þeirri spurn­ingu hvort tíma­bært væri að af­nema refs­ing­ar, sekt­ir og dóma, fyr­ir neyslu­skammta og gera þeim, sem gripn­ir væru með slíka skammta, held­ur að sækja sér ráðgjöf fag­fólks um fíkn og fíkni­vanda á veg­um bú­setu­sveit­ar­fé­lags viðkom­andi.

Ríkissaksóknari bað refsivörslukerfinu vægðar

Lagði hópurinn til að ákveðið magn algengustu fíkniefna í fórum neytenda yrði refsilaust, til dæmis áttu neytendur að geta haft á sér fimm grömm af amfetamíni, kókaíni og heróíni án þess að mega búast við refsingu og voru átta önnur efni á listanum og tillögur um magn við hvert þeirra.

Jørn Sig­urd Maurud rík­is­sak­sókn­ari taldi fíkni­efna­stefnu norskra stjórn­valda ekki hafa skilað miklu, ef frá væri talið gríðarlegt álag á dóms- og rétt­ar­kerfið. „Ég þarf ekki annað en að ganga fimm­tíu metra eft­ir göt­unni til að sjá að við eig­um okk­ur ekki bara sög­ur af vel­gengni þegar fíkni­efna­stefna norskra stjórn­valda er ann­ars veg­ar,“ sagði rík­is­sak­sókn­ari við NRK árið 2021. „Hér er ástæða til að hugsa hlut­ina upp á nýtt,“ sagði hann enn frem­ur og studdi þær breytingar sem starfshópurinn lagði til.

Støre felldi eigin tillögur

Upphaflega voru það Hægri, Verkamannaflokkurinn, sem Støre leiðir, Vinstri og Sósíalíski vinstriflokkurinn sem knúðu á um breytingar og refsileysi fyrir neysluskammta, en þegar að því kom að greiða atkvæði á þinginu um stefnubreytinguna, í júní 2021, hafði Verkamannaflokkurinn snúist í afstöðu sinni til málsins sem hann barðist fyrir árið 2017 og felldi tillöguna með stuðningi Framfaraflokksins og Miðflokksins. Önnur tilraun, með breyttum áherslum, en þó refsileysi fyrir neysluskammta, var gerð vorið 2022 en felld að undirlagi sömu flokka auk Kristilega þjóðarflokksins.

„Þetta eru ekki umbætur, þetta eru auknar refsingar,“ segir Guri Melby leiðtogi Vinstri um þá stefnu stjórnarinnar sem kynnt var í gær. „Síðan Verkamannaflokkurinn felldi tillögur ríkisstjórnar Ernu Solberg og Vinstri hafa um þúsund manns látist af ofskömmtun í Noregi. Þau þrjú ár sem liðin eru síðan Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn settust í stjórn hefur ríkisstjórnin dregið úr meðferðarúrræðum og kollvarpað meðhöndlun fíkla,“ segir Melby enn fremur.

Marian Hussein, varaformaður Sósíalíska vinstriflokksins, tekur í sama streng og kveður fíkla þurfa aðstoð, ekki refsingar. „Þetta eru okkur mikil vonbrigði. Hér eru ekki á ferð umbætur heldur magalending á versta tíma. Við höfum tekið stórt skref aftur á bak í refsistefnu og engar nýjar fjárveitingar eru á dagskrá fíklum til líknar.“

„Þetta eru svik“

Dag Inge Ulstein, leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins, segir bráðliggja á því að stemma stigu við aukinni neyslu og stöðlun (n. normalisering) fíkniefnaneyslu í þjóðfélaginu. Lögreglan standi orðið á hliðarlínunni án þeirra verkfæra sem henni séu þörf til að fyrirbyggja neyslu. „Norsk fíkniefnastefna verður að vera gegnheil og sterk. Ríkisstjórnin sýnir hvorki viðbrögð né kemur til hjálpar. Þetta eru svik.“

Bård Hoksrud heilbrigðismálafulltrúi Framfaraflokksins kveður of seint í rassinn gripið hjá stjórnvöldum. Sömu vikuna og hún kynni stefnuna hafi hún lagt niður hundrað meðferðarpláss í heilbrigðisumdæminu Helse Sør-Øst sem meðal annars nær yfir höfuðborgina Ósló. „Það er dagljóst að stríð ríkisstjórnarinnar við einkaaðila og hugmyndafræðinga er látið hafa forgang umfram aðstoð við fíkla,“ segir Hoksrud.

NRK


NRK-II (heilbrigðisráðherra tvístígandi)


VG


Dagsavisen


TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert