Georgíumenn mótmæla sigri draumsins

Stuðningsmenn Georgíska draumsins fagna fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Tíblisi.
Stuðningsmenn Georgíska draumsins fagna fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Tíblisi. AFP/Giorgi Arjevanidze

Fjöldi Georgíumanna mótmælir í dag umdeildum kosningasigri stjórnarflokksins, Georgíska draumsins, í þingkosningum í gær. Flokkurinn hefur verið við völd síðan árið 2012 og var í fyrstu frjálslynt afl sem vildi efla tengingu landsins við Vesturlönd. Á síðustu tveimur árum hefur flokkurinn tekið stefnubreytingum í öfuga átt, í átt að forræðishyggju og að Rússlandi.

Evrópusambandið og stjórnarandstaða Georgíu hafa dregið í efa réttmæti kosninganna og Charles Michel, forseti Evrópuráðsins, sagði að svara þyrfti ásökunum við framkvæmd kosninganna og að gera þyrfti grein fyrir frávikum í kosningaferlinu.

Fjórir flokkar með samtals 37,78%

Þá sagði Salome Zurabishvili, forseti Georgíu, að kosningarnar hefðu verið „sérstök rússnesk hernaðaraðgerð“ með vísan í hvernig yfirvöld í Rússlandi hafa talað um stríðið í Úkraínu.

Georgíski draumurinn hlaut 53,92% talinna atkvæða á meðan breiðfylking fjögurra stjórnarandstöðuflokka hlaut 37,78% talinna atkvæða. Fyrir vikið fer Georgíski draumurinn með umráð 89 þingsæta af 150. 

Fjöldi þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur lýst því yfir að þeir muni segja af sér þingmennsku verði niðurstöður kosninganna samþykktar.

Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra Georgíu og formaður Georgíska draumsins, hefur vísað ásökununum á bug og sagt að meint frávik væri ekki einungis að finna í georgísku kosningunum, heldur víða annars staðar.

Orban fagnar sigri draumsins

Zraubishvili sagði kosningarnar óréttmætar og tilraun til þess að stela framtíð þjóðarinnar frá henni. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, var fljótur að óska Georgíska draumnum til hamingju með sigurinn eftir að fyrstu tölur voru birtar. Von er á Orban til Georgíu í dag.

Utanríkisráðherra Póllands, Radoslaw Sikorksi, sagði aftur á móti á samskiptamiðlinum X að um kosningasvindl væri að ræða og að Evrópubúum bæri skylda til að sýna samstöðu með georgísku þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert