Sigraði í kosningum en fær ekki að stýra

Herbert Kickl leiðtogi Frelsisflokksins greiðir atkvæði í kjöri um forseta …
Herbert Kickl leiðtogi Frelsisflokksins greiðir atkvæði í kjöri um forseta nýs þings eftir að það kom fyrst saman í síðustu viku. AFP

Næsta ríkisstjórn Austurríkis mun teygja sig frá hægri og yfir á vinstri vænginn. Það má að minnsta kosti telja afar líklegt, eftir að forsetinn Alexander Van der Bellen fól leiðtoga Þjóðarflokksins (ÖVP) vald til stjórnarmyndunar í liðinni viku.

Þjóðarflokkurinn, sem leitt hefur ríkisstjórn frá árinu 2017, fyrst með Frelsisflokknum FPÖ og svo Græningjum þar til nú, laut í lægra haldi fyrir Frelsisflokknum í kosningunum 29. september.

Hlaut Þjóðarflokkurinn 26,3% atkvæða og tapaði 20 þingsætum, á meðan Frelsisflokkurinn fékk greidd 28,8% atkvæða og fjölgaði þingsætum sínum um 26.

Alls þarf 92 þingsæti fyrir meirihluta í neðri deild austurríska þingsins. 57 sæti Frelsisflokks og 51 sæti Þjóðarflokks ættu því að nægja fyrir drjúgan meirihluta. Og flokkarnir, báðir á hægri vængnum, hafa áður starfað saman. Síðast árin 2017 til 2019.

En svo verður ekki nú.

María Teresa, keisaraynja og erkihertogaynja af Austurríki, fylgist með forsetanum …
María Teresa, keisaraynja og erkihertogaynja af Austurríki, fylgist með forsetanum Van der Bellen, til hægri, og kanslaranum Nehammer. AFP

Forsetinn rauf hefðina

Það var formaður Þjóðarflokksins, kanslarinn Karl Nehammer, sem fékk loks umboð til stjórnarmyndunar eftir að forsetinn hafði átt fundi með leiðtogum þriggja stærstu flokkanna.

Auk Nehammers eru það þeir Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins og Andreas Babler formaður Sósíaldemókratanna (SPÖ), en sá flokkur bætti við sig einu þingsæti í kosningunum og fékk 41 þingmann kjörinn.

Úrslit kosninganna í september. Í röð frá vinstri: Græningjar, Sósíalistar, …
Úrslit kosninganna í september. Í röð frá vinstri: Græningjar, Sósíalistar, NEOS, ÖVP og FPÖ.

Þegar hafði forsetinn, sem sjálfur var leiðtogi Græningja árin 1997 til 2008, rofið langa hefð þegar hann neitaði að gefa Kickl umboð til stjórnarmyndunar.

Þess í stað mælti hann fyrir um að formenn stærstu flokkanna ræddu saman og kæmust að niðurstöðu sín á milli.

Alexander Van der Bellen tekur í hönd Herberts Kickl, formanns …
Alexander Van der Bellen tekur í hönd Herberts Kickl, formanns Frelsisflokksins, í Hofburg-höllinni í Vín. AFP

Allir þingflokkar útilokað samstarf

Að öðrum kosti hefði það verið í fyrsta sinn sem Frelsisflokkurinn, sem var stofnaður af fyrrverandi nasistum og er nú undir forystu Kickls sem kallað hefur sjálfan sig Volkskanzler, eða þjóðarkanslarann – nafngift sem síðast var notuð af Adolf Hitler – fengi stjórnarmyndunarumboð.

Nokkrir fyrrverandi foringjar í SS-sveitum nasista stofnuðu Frelsisflokkinn eftir síðari heimsstyrjöldina. Hefur hann lengi verið á meðal öflugustu þjóðernisflokkanna í Evrópu.

Þegar hann loks léði Nehammer umboðið sagði forsetinn það ljóst að Kickl gæti ekki fundið samstarfsflokk, sem myndi leyfa honum að verða að kanslara. Allir aðrir þingflokkar hafa enn fremur útilokað samstarf við Frelsisflokkinn á meðan hann er undir forystu Kickls.

Tók Van der Bellen fram að hann hefði einnig beðið Nehammer að hefja án tafar viðræður við Sósíaldemókrata.

Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins ávarpar nýtt þing í Vín síðasta …
Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins ávarpar nýtt þing í Vín síðasta fimmtudag. AFP

Þingið lét hefðina standa

Önnur hefð stendur þó enn órofin, eftir að þingið kaus á fimmtudag í fyrsta sinn þingmann Frelsisflokksins sem þingforseta.

Venju samkvæmt fellur embættið stærsta þingflokknum í skaut sem tilnefndi hinn 62 ára lögfræðing Walter Rosenkranz.

Rosenkranz hefur hlotið ákúrur fyrir meint gyðingahatur og fyrir að tilheyra nemendafélagi sem er þekkt fyrir ákafa þjóðernishyggju fyrir hönd hinna þýskumælandi þjóða.

Í ávarpi eftir að kjör hans varð ljóst lofaði Rosenkranz að halda áfram baráttu landsins gegn gyðingahatri. Sagði hann það lygi að samfélagi gyðinga stafaði ógn af honum.

Græningjar voru á meðal þeirra sem settu sig á móti kjöri Rosenkranz. Þeir hafa sagt það gefa skelfileg merki út á við að einhver úr slíkum öfgahægriflokki fari fyrir þinginu.

Walter Rosenkranz, nýr forseti austurríska þingsins.
Walter Rosenkranz, nýr forseti austurríska þingsins. AFP

„Getur ekki verið forseti þingsins“

Oskar Deutsch, forseti samtaka gyðinga í höfuðborginni Vín, tjáði hneykslun sína í opnu bréfi til allra þingmanna.

Sagði hann nýjan forseta þingsins koma úr röðum söguendurskoðunarsinna sem hylli nasista.

„Hver sá sem lætur sér vel lynda að vera í nostalgíuumhverfi þýskrar þjóðernishyggju og gyðingahaturs getur ekki verið forseti þingsins,“ sagði í yfirlýsingu Mauthausen-nefndarinnar í Austurríki, sem heitir eftir útrýmingarbúðum nasista í Efra-Austurríki á árunum 1938-1945.

Formaður nefndarinnar, Willi Mernyi, benti á að í greinarskrifum hefði Rosenkranz „lofað nasistasaksóknarann Johann Stich, sem lét taka 44 andspyrnumenn af lífi“. Rosenkranz varði þá grein sína í viðtali árið 2022.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert