Að minnsta kosti 60 manns féllu í árásum Ísraelshers á austurhluta Bekaa-dals í Líbanon að sögn líbanska heilbrigðisráðuneytisins.
Í frétt segir að tvö börn hafi verið á meðal þeirra sem féllu í árásum á tólf svæði á Baalbek-svæðinu að sögn embættismanna.
Þá særðust á sjötta tug manna en björgunaraðgerðir eru enn í gangi í Bekaa-dalnum sem er vígi Hisbollah-samtakanna. Talsmenn ísraelska hersins hafa ekki tjáð sig um árásirnar.
Ísraelsmenn hafa gert þúsundir loftárása víðs vegar um Líbanon undanfarnar fimm vikur og hafa árásirnar beinst að liðsmönnum Hisbollah, innviðum þeirra og vopnum.
Í gær létu sjö manns lífið og 17 særðust í loftárásum Ísraelshers á strandborgina Týrus, að sögn heilbrigðisráðuneytisins í Líbanon en Ísraelar gáfu út viðvörun til fólks um að yfirgefa miðborgina.
Líbanska heilbrigðisráðuneytið segir að meira en 2.600 manns hafi látið lífið og meira en 12.400 særst í Líbanon frá því Ísraelsher hóf árásirnar.