Hægagangur ástralskra yfirvalda við að dreifa bóluefnum vegna kórónuveirufaraldursins kostaði ríkið yfir 20 milljarða dala (um 2.700 milljarða kr.) þar sem útgöngubönn og aðrar aðgerðir vegna faraldursins voru framlengdar úr hófi fram.
Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem voru birtar í dag.
Rannsóknin stóð yfir í eitt ár og einblíndi hún á seinagang ástralskra stjórnvalda við að koma bóluefnunum í dreifingu. Tekið er fram að þáverandi forsætisráðherra landsins, Scott Morrison, hafi sagt að dreifing þeirra væri ekki keppni.
Yfirvöld í Ástralíu gripu til mjög harðra aðgerða á þessum tíma en þau í raun lokuðu landamærum landsins í tvö ár og umfangsmiklar sóttvarnaaðgerðir í stórborgum stóðu yfir mánuðum saman.
Fram kemur í skýrslunni, að tafir á dreifingu bóluefna leiddu til þess að mjög harðar aðgerðir voru við lýði í fjölmörgum borgum mörgum mánuðum lengur en þörf var á. Í skýrslunni er efnahagslegt tjón landsins metið á að minnsta kosti 20 milljarða dala, eða 2.700 milljarða íslenskra króna.
Þrátt fyrir að viðbrögð Ástrala við heimsfaraldrinum hafi almennt skilað góðum árangri, þá er tekið fram í skýrslunni að hertar aðgerðir og önnur mistök sem voru gerð hafi ýtt undir vantraust í garð vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks í landinu.
Bent er á ein umfangsmikil mistök sem voru gerð þegar mörg þúsund farþegum skemmtiferðaskips var gefið grænt ljós til að yfirgefa skipið áður en niðurstöður covid-prófa lágu fyrir.
Þá er tekið fram í skýrslunni að áströlsk stjórnvöld muni setja á laggirnar nýja sóttvarnamiðstöð til að standa betur að slíkum málum í framtíðinni.