Mega taka út reiðufé að vild

„Þetta eru mörk sem við höfum í tengslum við upplýsingaskyldu …
„Þetta eru mörk sem við höfum í tengslum við upplýsingaskyldu okkar gegnum yfirlýsingu viðskiptavinar og tengjast mörkum sem við styðjumst við í fyrirbyggjandi aðgerðum okkar á vettvangi peningaþvottar,“ segir Jan Erling Kvisvik, upplýsingafulltrúi Skagerrak Sparebank í Noregi, við mbl.is í tengslum við mál viðskiptavinar sem vakti gríðarlega athygli í Noregi í öndverðan október. Ljósmynd/Skagerrak Sparebank

„Engin takmörk eru á því hve mikið reiðufé viðskiptavinir geta tekið út á einu ári. Flestir hraðbankar í Noregi setja 10.000 króna hámark á hverja úttekt, það er ráðstöfun sem ætlað er að stemma stigu við að viðskiptavinir tæmi reiðufjárbirgðir hraðbankans.“

Þetta segir Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank í Noregi og svarar þar með fyrirspurn mbl.is í sex liðum í kjölfar umfjöllunar um frétt TV2 í Noregi af Heidi Kaltvedt, viðskiptavini bankans sem fékk kaldar kveðjur í kjölfar reiðufjárúttektar og lesa má um handan tengilsins hér fyrir neðan.

Segir Kvisvik það auðsótt mál, þarfnist einstakir viðskiptavinir meira reiðufjár en hraðbankarnir geti látið í té, að koma í bankann á afgreiðslutíma og bera málið upp við ráðgjafa þar, svo útvega megi meira reiðufé.

„Þó er það þannig nú orðið að bankarnir liggja ekki á miklu reiðufé, það er til að draga úr ránshættu og enn fremur vegna þess hve fáir viðskiptavinir nota reiðufé,“ útskýrir samskiptastjórinn.

Geta orðið meðskuldarar

Eins og fram kemur í frétt TV2, sem mbl.is gerði á sínum tíma skil og hlekkjuð er við hér að ofan, bað Skagerrak Sparebank Heidi Kaltvedt innilega afsökunar á þeim skilaboðum sem henni bárust og kvað þau aldrei hafa átt að berast henni.

„Enginn norskur banki getur ráðið eða stýrt því í hvað viðskiptavinirnir nota peningana sína, en mikilvægt er að viðskiptavinir séu meðvitaðir um að greiði þeir svart fyrir vörur eða þjónustu geta þeir orðið meðskuldarar að sköttum eða gjöldum sem viðtakanda greiðslunnar yrði gert að reiða fram,“ heldur Kvisvik áfram.

Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank, kvað mistök …
Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank, kvað mistök hafa átt sér stað með skilaboðum sem send voru viðskiptavini bankans og TV2 í Noregi fjallaði um. Ljósmynd/Skagerrak Sparebank

Bendir hann enn fremur á að samkvæmt norskum lögum um peningaþvott sé engum kaupmanni heimilt að taka við hærri greiðslu en 40.000 norskum krónum í reiðufé, jafnvirði 500.000 íslenskra króna, fyrir vöru sína. „Margir neytendur eru ekki meðvitaðir um þau vandræði sem þeirra geta beðið greiði þeir svart fyrir vörur eða þjónustu,“ segir Kvisvik.

25.000 króna mörk vegna upplýsingaskyldu

„Við höfum enga samninga sem viðskiptavinum er ætlað að undirrita um að þeir megi ekki taka út meira en 25.000 krónur á ári [313.000 ISK],“ segir hann og svarar þar með fyrirspurn mbl.is um viðskiptavini sem blaðamaður vissi til að hefðu undirritað samning með téðri upphæð.

„Þetta eru mörk sem við höfum í tengslum við upplýsingaskyldu okkar gegnum yfirlýsingu viðskiptavinar og tengjast mörkum sem við styðjumst við í fyrirbyggjandi aðgerðum okkar á vettvangi peningaþvottar. Gefi viðskiptavinurinn okkur upplýsingar um að hann muni nota meira reiðufé en nemur þeirri upphæð til neyslu sinnar er það í góðu lagi,“ segir Kvisvik.

Útskýrir hann málið frekar með því að gefi viðskiptavinur upp að hann reikni ekki með að nota meira en 25.000 norskar krónur á ári í reiðufé geti úttektir umfram þá upphæð vakið grunsemdir um að viðkomandi sæti svikum eða hótunum eða þá að hann sé kominn í slíkar aðstæður að hann sé við það að fremja afbrot sem honum sé ekki kunnugt um.

Spyrja eingöngu sé fjáruppspretta ókunn

„Peningaburðardýr eru dæmi um þetta, þau nota brotamenn þannig að fórnarlambið er látið nota bankareikning sinn til að þvo peninga,“ segir Kvisvik og vísar á ný í norsk lög um peningaþvott, grein sem býður bankastofnunum að útvega sér og meta nauðsynlegar upplýsingar um viðskiptasambönd sín.

„Við byggjum vinnu okkar á áhættugreiningu, við spyrjum viðskiptavininn eingöngu spurninga sé uppspretta fjár hans ókunn. Allt annað gildir um úttekt reiðufjár, sé féð laun, eftirlaun, bætur og svo framvegis er uppruni þess þekktur og viðskiptavinurinn getur notað reiðufé eins og hann lystir.

Á þessum vettvangi höfum við ekki gert nokkra breytingu á verklagsreglum okkar, grundvallarreglur um peningaþvott eru þær sömu þótt lagabreytingin sem tók gildi 1. október hafi verið gerð,“ segir Kvisvik og vísar til orðalagsbreytingar í lögum um fjármunasamninga sem gildi tók nefndan dag og skyldar alla seljendur vöru og þjónustu í Noregi, svo óyggjandi sé, til þess að taka við reiðufé sem greiðslu. Enginn geti þar með sett það skilyrði að viðskiptavinir greiði með greiðslukorti.

Að lokum:

Selur Skagerrak Sparebank, eða afhendir með öðrum hætti, þriðja aðila upplýsingar um kauphegðun eða innkaup viðskiptavina sinna?

„Skagerrak Sparebank hefur aldrei og mun aldrei selja þriðja aðila upplýsingar. Við föllum undir sjötta kafla peningaþvottalaga um meðhöndlun persónuupplýsinga og annarra upplýsinga,“ svarar Jan Erling Kvisvik, markaðs- og samskiptastjóri Skagerrak Sparebank.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka