Ræddu um hermennina frá Norður-Kóreu

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er staddur á Íslandi.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er staddur á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, ræddi við forseta Suður-Kóreu, Yoon Suk Yeol, um þátttöku Norður-Kóreu í stríðsrekstri Rússlands, í gegnum síma. Hann greinir frá símtalinu á Twitter.

Deildi Selenskí nýlegum gögnum með suðurkóreska starfsbróður sínum sem hann segir sýna flutning þrjú þúsund hermanna frá Norður-Kóreu á rússnesk æfingarsvæði skammt frá átakasvæðum. 

Úkraínski forsetinn er nú staddur á Íslandi á þingi Norðurlandaráðs. Fundaði hann með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Bessastöðum í morgun.

Áætla að tólf þúsund hermenn fari til Rússlands

Samkvæmt upplýsingum sem Pentagon er með undir höndum eru um tíu þúsund norðurkóreskir hermenn við þjálfun í Austur-Rússlandi.

Talið er að hermennirnir muni veita rússneskum hersveitum í Kúrsk-héraði í Rússlandi liðsinni í náinni framtíð.

Selenskí greinir frá því að áætlað sé að allt að tólf þúsund hermenn frá Norður-Kóreu fari til Rússlands.

Þakkaði fyrir stuðning

„Fyrst og fremst þakkaði ég honum fyrir óyggjandi stuðning Suður-Kóreu við fullveldi og landhelgi Úkraínu, jafnt sem fjárhags- og mannúðarstuðning sem ríkið hefur þegar veitt og heitið að veita,“ ritar Selenskí á Twitter um símtalið.

„Við ræddum þátttöku norðurkóreskra hersveita í innrásarstríði Rússa í Úkraínu. Niðurstaðan var skýr – þetta stríð er að alþjóðavæðast, það nær til fleiri en tveggja landa.“

Senda sendinefndir

Selenskí segir hann og suðurkóreska forsetann hafa sammælst um mikilvægi þess að styrkja skipti ríkjanna á njósnaupplýsingum og auka samskipti sín á milli til að þróa aðgerðaáætlun og mótvægisaðgerðir til að bregðast við stigmögnun stríðsins.

„Sem hluti af þessum samningi munu Úkraína og Suður-Kórea skiptast á sendinefndum til að samræma aðgerðir.“

Þá bauð Selenskí Suður-Kóreu til að skrifa undir tvíhliða öryggissamning sem var undirritaður á fundi G7-ríkjanna í Vilníus á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka