Rússar ná enn einum bænum á sitt vald

Frá árás Rússa á Míkólaív fyrr í mánuðinum.
Frá árás Rússa á Míkólaív fyrr í mánuðinum. AFP

Varnarmálaráðherra Rússlands segir að her landsins hafi náð á sitt vald úkraínska bænum Selídóve. Um tuttugu þúsund manns bjuggu í bænum, áður en Pútín skipaði fyrir um innrás Rússa. Landvinningar Rússa hafa ekki verið meiri frá upphafi stríðsins.

Herinn færist stöðugt nær mikilvægu borginni Pokrovsk.

Bærinn er sá nýjasti í röð margra landvinninga Rússlands, sem hefur tekið yfir mikið landflæmi í Dónetsk-héraði á liðnum mánuðum.

Tilkynning ráðherrans fylgir skammt á eftir álíka tilkynningum um að Rússar hafi náð tveimur þorpum sem liggja þar nærri, Bógójavíenka og Katerínívka, auk bæjarins Girnik, sem eru öll suður af Selídóve og nálægt iðnaðarbænum Kúrakhóve, sem Úkraínumenn halda enn.

Tuttugu þúsund manna bær

Um tuttugu þúsund manns bjuggu í Selídóve áður en Vladimír Pútín Rússlandsforseti skipaði fyrir um innrás í Úkraínu í febrúar árið 2022.

Í bænum var eina kolanáman í Dónetsk-héraði sem enn var á valdi Úkraínumanna. Var náman þeim mikilvæg.

Rússar hafa náð 478 ferkílómetrum af úkraínsku landi á sitt vald í þessum mánuði, en svo háar tölur hafa ekki sést frá því í mars eftir að innrásin hófst, samkvæmt úttekt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka