10 ára dómur fyrir djúpfalsað klám

Aðgerðasinnar í Suður-Kóreu mótmæla klámi tengdu djúpfölsun í lok ágúst.
Aðgerðasinnar í Suður-Kóreu mótmæla klámi tengdu djúpfölsun í lok ágúst. AFP/Anthony Wallace

Dómstóll í Suður-Kóreu hefur dæmt karlmann í 10 ára fangelsi fyrir að dreifa djúpfölsuðum klámfengnum ljósmyndum af konum sem stunduðu nám í virtasta háskóla landsins.

Djúpfölsunarkrísa hefur verið ríkt í Suður-Kóreu eftir að upp komst um spjallþræði á samfélagsmiðlinum Telegram fyrr á þessu ári þar sem kvenkyns stúdentar og starfsfólk almenningsskóla og háskóla voru fórnarlömbin.

Í einu af stærstu málunum til þessa bjuggu tveir menn til og dreifðu næstum tvö þúsund niðurlægjandi klámfengnum ljósmyndum af konum sem búnar voru til með aðstoð gervigreindar. Konurnar gengu í sama skóla og þeir, Þjóðarháskólann í Seúl, en dreifing myndanna hófst árið 2021 og stóð yfir þangað til í apríl síðastliðnum.

Aðgerðasinnar halda á andlitsgrímum til að mótmæla klámi tengdu djúpfölsun …
Aðgerðasinnar halda á andlitsgrímum til að mótmæla klámi tengdu djúpfölsun í Suður-Kóreu. AFP/Anthony Wallace

Annar mannanna, með eftirnafnið Park, var dæmdur í 10 ára fangelsi. Hinn, með eftirnafnið Kang, hlaut fjögurra ára dóm.

„Fórnarlömbin voru kvíðin og lifðu í ótta. Allir karlkyns kunningjar lágu undir grun hjá þeim þangað til hinir dæmdu voru handteknir,“ sagði í dóminum.

Refsað hefur verið fyrir glæpi tengda djúpfölsun frá árinu 2020 í Suður-Kóreu. Tíu ára dómurinn sem núna féll er líkast til sá þyngsti til þessa, að sögn lögmanns 15 af fórnarlömbunum, Song Ji-eun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka