Biden gæti hafa komið Harris í vandræði

Samsett mynd af Harris og Trump.
Samsett mynd af Harris og Trump. AFP/Jeff Kowalsky og Mandel Ngan

Þegar aðeins sex dagar eru þar til kosið verður um nýjan forseta Bandaríkjanna harðnar kosningabaráttan dag frá degi þar sem frambjóðendurnir Donald Trump og Kamala Harris nota hvert tækifæri til að koma höggi á hvort annað.

Orð Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur hleypt illu blóði í Trump og stuðningsmenn hans en Biden kallaði stuðningsfólk Trumps rusl. Ummæli forsetans gætu sett strik í reikninginn í baráttu Harris við Trump um forsetastólinn en þegar aðeins sex dagar eru þar til kosið verður í Bandaríkjunum mælast Trump og Harris hnífjöfn.

„Eina ruslið sem ég sé fljóta þarna úti eru stuðningsmenn Trump,“ sagði Biden í viðtalinu.

Þetta sagði Biden í samtali við VotoLatino samtökin og var þar að svara fyrir orð grínistans Tony Hinchcliffe, sem er yfirlýstur stuðningsmaður Trumps, þar sem hann sagði á kosningafundi Trumps í New York að Púertó Ríkó væri fljótandi ruslaeyja á hafi úti.

Gerði grín að Biden

Trump gagnrýnir Biden harðlega fyrir að kalla stuðningsfólk hans rusl en á kosningafundi í Pennsylvaníu í gærkvöld gerði Trump grín að Biden og bað stuðningsmenn sína um að fyrirgefa forsetanum þar sem hann hafi ekki vitað hvað hann væri að segja.

Trump bar orð Biden saman við þegar Hillary Clinton sagði helming Rebúblikana vera ömurlegt fólk í kosningabaráttunni fyrir átta árum.

Biden segir á samfélagsmiðlinum X að hann hafi verið að tala um hatursfulla orðræðu og það hafi verið allt sem hann ætlaði að segja.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert