Biden gerir tilraun til að útskýra mál sitt

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur reynt að útskýra ummæli sem hann lét falla um stuðningsmenn Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðenda. 

Biden, sem kallaði stuðningsmenn Trumps „rusl“, lét ummælin falla eftir uppistand sem grínistinn Tony Hinchcliffe var með á kosningafundi Trumps í New York á sunnudag. Hinchcliffe sagði þar að Púertó Ríkó væri „ruslaeyja“, og fóru ummælin fyrir brjóstið á mörgum. 

„Eina ruslið sem ég sé fljóta þarna úti eru stuðningsmenn hans [Trumps],“ var haft eftir Biden í gær sem varð til þess að stuðningsmenn Repúblikanaflokksins brugðust reiðir við. 

Bandaríski grínistinn Tony Hinchcliffe var með uppistand á kosningafundi Trumps …
Bandaríski grínistinn Tony Hinchcliffe var með uppistand á kosningafundi Trumps í New York á sunnudag. AFP


„Eina ruslið sem ég sé fljóta þarna úti eru stuðningsmenn hans [...] sú neikvæða mynd sem hann dregur upp af rómönsk-amerískum íbúum er ósanngjörn og óamerísk,“ segir í endurritinu.

Ummælin endurspegli ekki Bandaríkin sem þjóð

Í kjölfarið tjáði Biden sig sjálfur um málið, en ummælin umdeildu lét hann upphaflega falla í myndsímtali við félagasamtökin Voto Latino. Í færslu sem Biden birti á X sagðist hann hafa vísað til þeirra hatursfullu orðræðu stuðningsfólks Trumps, sem beindist að íbúum Púertó Ríkó, sem rusls „sem er eina orðið sem mér dettur í hug til að lýsa þessu“.

„Sú dökka mynd sem hann dregur upp af íbúum frá Rómönsku-Ameríku er ósanngjörn. Það er það eina sem ég ætlaði að segja. Ummælin sem voru látin falla á þessum kosningafundi endurspegla okkur ekki sem þjóð.“

Minni á ummæli sem Clinton lét falla 2016

Stuðningsfólk Trumps hefur aftur á móti brugðist hart við og segja ummælin minna á orð sem Hillary Clinton lét falla í forsetakosningunum árið 2016 þegar hún sagði að helmingur stuðningsfólks Trumps væru aumkunarverðir (e. basket of deplorables). 

Trump hefur einnig tjáð sig um ummæli Bidens. „Þú getur ekki stjórnað Bandaríkjunum ef þú elskar ekki Bandaríkjamenn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka