Fundu ævaforna borg fyrir tilviljun

Myndin sýnir hinar frægu Chichen-Itza rústir Maya í Mexíkó sem …
Myndin sýnir hinar frægu Chichen-Itza rústir Maya í Mexíkó sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Ljósmynd/Colourbox

Gríðarstór borg Maya hefur fundist mörgum öldum eftir að hún hvarf sjónum manna í skóglendi í Mexíkó. 

Fornleifafræðingar hafa fundið píramída, íþróttavelli, upphækkaða vegi sem tengdu saman hverfi og útileikhús í ríkinu Campeche, sem er í suðausturhluta landsins. 

Fræðimennirnir kalla borgina Valeriana. Þeir fundu hana með aðstoð Lidar, sem er geislatækni sem teiknar upp kort af byggingum sem liggja undir gróðri. 

Næststærsta borg Maya

Talið er að borgin sé næststærsta borg Maya sem hefur fundist á eftir Calakmul, en borgin er talin vera stærsta borg Maya í Rómönsku-Ameríku, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins. 

Fornleifafræðingarnir fundu allt í allt þrjá reiti sem samanlagt eru sagðir vera á stærð við Edinborg, höfuðborg Skotlands. Þetta gerðist fyrir staka tilviljun þegar einn fræðinganna var að skoða gögn á vefnum. 

Var að gúgla

„Ég var kominn um það bil á blaðsíðu 16 í Google-leit og fann geislakönnun sem mexíkósk stofnun gerði í tengslum við umhverfisrannsóknir,“ segir Luke Auld-Thomas, sem stundar doktorsnám við háskólann í Tulane í Bandaríkjunum. 

Um var að ræða Lidar-rannsókn sem skýtur mörg þúsund geislapúlsum niður úr flugvél og teiknar upp kort af svæðinu sem flogið er yfir.

Hátt í 50.000 manna borg

Þegar Auld-Thomas fór nánar yfir gögnin með aðferðum sem fornleifafræðingar hafa beitt, þá sá hann eitthvað sem hafði farið fram hjá öðru fólki: risavaxna forna borg. Talið er að á bilinu 30 til 50.000 manns hafi búið þarna á hápunkti byggðarinnar um 750 til 850 eftir krist. 

Það eru mun fleiri en búa á þessu svæði núna að sögn vísindamanna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka