Íslendingar á Costa Blanca: Hryllingur

Frá Malaga á Spáni þar sem allt er á floti …
Frá Malaga á Spáni þar sem allt er á floti eftir gríðarlega úrkomu síðustu daga. AFP

Nokkrir hafa fundist látnir eftir að úrhellisrigning olli skyndiflóðum í suðausturhluta Spánar. Í Valencia og nágrenni er ástandinu líkt við hrylling á Facebook-síðu Íslendinga í Costa Blanca. 

„Grafalvarleg staða í Valencia og nágrenni. Mörg þorp eru á bólakafi, hús að hrynja, AP7 Valencia-Madrid og flugvöllurinn á floti. Þúsundir manna fastir í bílum og sumir ekki svo heppnir að hafa komist undan. Hryllingur!!!,“ segir í færslu Íslendinga í Costa Blanca á Facebook.

„Lík hafa fundist en af ​​virðingu fyrir fjölskyldunum ætlum við ekki að veita frekari upplýsingar,“ segir Carlos Mazon, héraðsstjóri Valencia-héraðs, við fréttamenn en nýjustu fregnir herma að 13 séu látnir eftir hamfarirnar.

Sex manna er saknað í Letur í austurhluta Albacete að sögn embættismanna en spænska veðurstofan hefur lýst yfir rauðri viðvörun á Valencia svæðinu og næsthæsta viðbúnaðarstigi á nokkrum stöðum í Andalúsíu.

Yfirvöld í Valencia greindu frá því að skólar yrðu lokaðir í dag sem og allir garðar og þá hefur öllum íþróttaviðburðum verið frestað.

Hraðlest með á þriðja hundruð farþega innanborðs fór út af sporinu nálægt Malaga en engin slys urðu á fólki og þá hafa lestarsamgöngur á milli Malaga og Valencia raskast verulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka