Heimsóknir kjarnorkuknúinna sjófara hafa fimmfaldast að fjölda

Umferð kjarnorkukafbáta á vegum bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins NATO hefur stóraukist við …
Umferð kjarnorkukafbáta á vegum bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins NATO hefur stóraukist við Noregsstrendur og verið töluvert í umræðunni undanfarin misseri. Ljósmynd/Paul Farley/AFP

Kjarnorkuknúin sjóför, einkum kafbátar, venja nú í æ ríkari mæli komur sínar til Norður-Noregs og hefur heimsóknum þeirra fjölgað svo mjög, að þær eru nú orðnar um 50 á ári í samanburði við aðeins tíu fyrir fáeinum árum.

Þykir nú svo rammt kveða að umferð þessari, að fulltrúar fimmtán stofnana, sem hafa með málaflokkinn að gera, svo sem geislavarnir og fleira tengt, komu saman til fundar í Tromsø í gær, höfuðstað Norður-Noregs.

Samtímis fundinum lá einmitt bandarískur kjarnorkukafbátur við bryggju í Grøtsund, skammt frá Tromsø, og skemmst er að minnast heimsóknar hins gríðarmikla flugmóðurskips USS Gerald R. Ford, þess stærsta í heimi, í fyrravor, en skipið sigldi frá Ósló og alla leið norður til Tromsø sem að mati greinenda er það lengsta sem sjóför bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins NATO geta siglt norður eftir strönd Noregs án þess að Rússar líti á ferðalagið sem ógnun.

USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði í ofanverðan maímánuð í …
USS Gerald R. Ford á Óslóarfirði í ofanverðan maímánuð í fyrra, stærsta flugmóðurskip veraldar. AFP/Terje Pedersen

Viðbúnaður frá Tsjernóbil-slysinu

„Við erum vel undirbúin. Okkur er gert aðvart [um komu kjarnorkuknúinna sjófara] áður og við tilkynnum okkar samstarfsaðilum um væntanlega áningu áður en til hennar kemur,“ segir Kjersti Kristiansen, aðstoðarviðbúnaðarstjóri fylkismannsins í Troms og Finnmörk, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Fullvissar hún fréttamann um að allur viðbúnaður á svæðinu, komi til einhvers konar óhappa eða slysa, sé tryggður auk þess sem óhöpp á þessum vettvangi séu mjög fátíð. Auk kafbáta og flugmóðurskipsins heimsækja kjarnorkuknúnir ísbrjótar Tromsø og fleiri byggðarlög Norður-Noregs reglulega.

Allar götur síðan kjarnorkuslysið varð í Tsjernóbil í apríllok 1986 hafa norsk stjórnvöld haft uppi viðbúnað í landinu vegna hugsanlegra kjarnorkuslysa eða -óhappa og segir Øyvind Gjølme Selnæs, sviðsstjóri viðbúnaðargreiningar hjá Geislunarvarna- og kjarnorkuöryggisstofnunar Noregs, Direktoratet for strålevern og atomsikkerhet, eða DSA, að það sé á ábyrgð stofnunar hans að fylgjast með heimsóknum kjarnorkuknúinna sjófara og meta hvort þær megi teljast forsvaranlegar.

USS Gerald R. Ford getur borið allt að 90 orrustuþotur …
USS Gerald R. Ford getur borið allt að 90 orrustuþotur og þyrlur. Frá heimsókninni í fyrravor. AFP/Terje Pedersen

Samhliða því sem aðildarríki NATO hafa aukið nærveru sinna hernaðarlegu farartækja í og við Noreg hafa Rússar einnig fjölgað í sínum flota á Barentshafinu, en auk herskipa hafa þeir á að skipa mun meiri fjölda kjarnorkuknúinna ísbrjóta en Norðmenn auk þess sem þeir gera út eitt fljótandi kjarnorkuver.

Telur Selnæs litla ástæðu til að óttast kjarnorkuóhöpp í tengslum við þau farartæki sem Noreg heimsækja.

„Öryggismál eru í góðu horfi á þessum sjóförum. Við leggjum mikla áherslu á öryggismál og viðbúnað. Farið er í gegnum áætlanir þar að lútandi fyrir hverja heimsókn,“ segir hann.

Håvard Malmedal, slökkviliðsstjóri og ábyrgðarmaður efna-, líffræði-, geisla- og kjarnorkuvopnamála í Tromsøkveður verkefnin þau sömu vegna allra kjarnorkuknúinna sjófara og þar beri áhöfn hvers fars höfuðábyrgðina.

„Við höfum ekkert um borð í þessi farartæki að gera. Verði kjarnorkuslys um borð segja verklagsreglurnar að skipið skuli fara frá bryggju og reyna að ná til eigin heimahafnar,“ segir Malmedal um gildandi reglur í Tromsø þar sem töluverð umræða hefur verið um ítrekaðar og tíðari heimsóknir bandarískra kjarnorkukafbáta undanfarin misseri.

NRK

NRK-II (netárás tengd kafbátaheimild)

NRK-III (þvingaðir til að taka á móti kafbátum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka