Skortur á hermönnum í Ísrael

Ísraelskir hermenn á suðurhluta Gasasvæðisins.
Ísraelskir hermenn á suðurhluta Gasasvæðisins. AFP

Þegar rúmt ár er liðið síðan stríðið á Gasasvæðinu hófst er varaherlið Ísraels örmagna, auk þess sem herinn á erfitt með að safna saman hermönnum. Á sama tíma halda bardagar áfram af fullum krafti á Gasasvæðinu og í Líbanon.

Kallað hefur verið í um 300 þúsund varahermenn síðan árás Hamas-samtakanna á Ísrael var gerð 7. október í fyrra, að sögn hersins. 18% þeirra eru karlmenn sem eru eldri en fertugir en venjulega hefðu þeir verið undanskildir þátttöku.

Herskylda er við lýði í Ísrael frá 18 ára aldri bæði fyrir karlmenn og konur, þó svo að þó nokkrar undanþágur séu veittar frá því.

Ísraelskir hermenn á suðurhluta Gasasvæðisins.
Ísraelskir hermenn á suðurhluta Gasasvæðisins. AFP

Ísrael á í hörðu stríði við Hamas-samtökin á Gasasvæðinu og Hisbollah-samtökin, sem njóta stuðnings Írana, í Líbanon.

Síðan landhernaður hófst á Gasa 27. október í fyrra hafa 367 ísraelskir hermenn fallið á svæðinu. Í Líbanon hafa 37 fallið síðan Ísraelar hófu landhernað 30. september.

„Erum að drukkna“

Tími varahermanna í stríðinu hefur verið framlengdur og sumir þeirra kvarta yfir því að þeir geti ekki haldið áfram með líf sitt þegar þeir hafa verið í hernum í sex mánuði samfleytt.

„Við erum að drukkna,“ sagði varahermaðurinn Ariel Seri-Levy í færslu á samfélagsmiðli, sem hefur verið deilt mörg þúsund sinnum.

Ísraelskur hermaður í Ein Tamar í suðurhluta Ísraels.
Ísraelskur hermaður í Ein Tamar í suðurhluta Ísraels. AFP/Ahmad Gharabli

Hann sagðist hafa fengið kallið um að mæta í herinn fjórum sinnum frá árásinni 7. október og gagnrýndi þá sem vilja að Ísraelsher verði áfram í Líbanon og á Gasasvæðinu.

„Við verðum að binda enda á þetta stríð vegna þess að við höfum ekki nógu marga hermenn,“ sagði hann.

Annar varahermaður og tveggja barna faðir sagði við AFP að „þreyta og andleg örmögnun bætast við þá staðreynd að ég missti vinnuna mína“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka