Musk gert að mæta í dómsal í dag

Elon Musk og Trump á kosningafundi í byrjun mánaðarins.
Elon Musk og Trump á kosningafundi í byrjun mánaðarins. AFP/Jim Watson

Milljarðamæringurinn Elon Musk á að mæta í dómsal í Fíladelfíu í Bandaríkjunum í dag.

Dómari fyrirskipaði að hann skyldi mæta í réttarhöld í tengslum við mál sem var höfðað til að koma í veg fyrir að hann gæti gefið eina milljón dollara til skráðra kjósenda í komandi forsetakosningum í sveifluríkjum.

Yfirsaksóknari Fíladelfíu-borgar, Larry Krasner, höfðaði málið á mánudaginn og sagði Musk hafa búið til „ólöglegt lottósvindl“. Í kjölfarið kvað dómari upp þann úrskurð í gær um að Musk skyldi mæta í dómsalinn.

Musk og Trump á kosningafundi.
Musk og Trump á kosningafundi. AFP/Jim Watson

Mikla athygli vakti þegar Musk tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann ætlaði að gefa einum skráðum kjósanda í sveifluríki eina milljón dollara á dag, eða um 143 milljónir króna, fram til kosninganna 5. nóvember. Efasemdir komu strax fram um lögmæti þess.

Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að Musk hefði gefið póli­tísku hags­muna­fé­lagi sem hann stofnaði til að styðja við banda­ríska for­setafram­bjóðand­ann Don­ald Trump tæp­ar 75 millj­ón­ir banda­ríkja­dala, sem jafn­gild­ir um 10 millj­örðum króna.

Fyrrverandi stuðningsmaður Obama

Musk hélt ræðu á kosningafundi Trumps í Fíladelfíu fyrr í mánuðinum. Auðjöfurinn, sem áður var stuðningsmaður Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur orðið sífellt íhaldssamari með árunum.

Hann hefur ítrekað skrifað til stuðnings Trump á samfélagsmiðlinum X, þar sem hann er með 202 milljónir fylgjenda. Einnig hefur hann ítrekað gagnrýnt þar Kamölu Harris varaforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert