„Versti dagur lífs míns“

„Í gær var versti dagur líf míns,“ segir Ricardo Gabaldon, borgarstjóri Utiel í Valenciu-héraði við spænska ríkisútvarpið en eftir gríðarlegt hamfaraflóð í héraðinu eru 95 látnir og margra er saknað.

Björgunaraðilar vinna baki brotnu við leit að fólki en tugir hermanna eru mættir á svæðið til aðstoðar við leitina. Úrhellisrigning á þriðjudaginn olli skyndiflóðum sem sópuðu burt brúm og byggingum og fólk neyddist til að klifra upp á þök og halda sig við tré til að lifa af.

„Við vorum föst eins og rottur. Bílar og ruslagámar flæddu niður göturnar,“ segir borgarstjórinn.

Ríkisstjórnin hefur boðað þriggja daga þjóðarsorg frá og með deginum í dag en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka verulega þar sem margir eru týndir.

Þetta eru mannskæðustu flóð á Spáni síðan árið 1973 en þá fórust 150 manns í miklum flóðum í suðausturhluta landsins.

Allur Spánn grætur með ykkur

Allar lestarsamgöngur í Valenciu-héraði liggja niðri og skólar og söfn eru lokuð. Tugþúsundir heimila eru án rafmagns og drykkjarvatns og þá eru margir vegir lokaðir en hræ hundraða bíla og vörubíla sem sópuðust í burtu með vatnsstraumnum teppa vegina.

Allur Spánn grætur með ykkur öllum. Við munum ekki yfirgefa ykkur,“ sagði Pedro Sanchez forsætisráðherra við fórnarlömb og fjölskyldur þeirra í sjónvarpsávarpi í gærkvöld en hann er væntanlegur til Valenciu-héraðs í dag.

Björgunaraðilar vinna hörðum höndum við að bjarga fólki eftir hamfaraflóðin.
Björgunaraðilar vinna hörðum höndum við að bjarga fólki eftir hamfaraflóðin. AFP
Bílar fljótandi um götur í Valenciu-héraði eftir hamfaraflóðin.
Bílar fljótandi um götur í Valenciu-héraði eftir hamfaraflóðin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka