Búa sig undir enn meiri rigningu og flóð

Íbúar í Valencia- og Castellon-héruðunum á Spáni, sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á hamfaraflóðum í vikunni, búa sig undir enn meiri rigningu í dag sem gæti valdið frekari flóðum.

Flóðin hafa kostað 158 manns lífið og 155 þeirra hafa farist í austurhluta Valenciu-héraðsins. Enn er fjölda fólks saknað og líklegt er að fleiri fórnarlömb finnist en björgunarfólk vinnur hörðum höndum í leit að fólki og eru til að mynda 1.000 hermenn mættir á svæðið til aðstoðar við leitina.

„Því miður er látið fólk í mörgum farartækjum víðs vegar í Valenciu-héraði,“ segir Oscar Puente, samgöngumálaráðherra Spánar, við fjölmiðla.

Embættismenn hafa ekki gefið upp fjölda þeirra sem er saknað en segja að þeir séu margir og óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka talsvert. Borgarstjóri í borginni Chiva, sem er um 30 kílómetra vestur af Valencia, sagði við fjölmiðla í gærkvöld að hann óttaðist að tala látinna í borginni gæti aukist um nokkur hundruð.

Spænska veðurstofan spáir talsverðri úrkomu í Valencia og nágrenni í dag og þá er óttast að ár rísi annars staðar á Spáni í kjölfar gríðarlegrar úrkomu, þar á meðal í Sevilla á suðvestur Spáni. Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir héraðið Huelva og þá eru gular viðvaranir á mörgum stöðum.

Fólk við hreinsunarstörf í Paiporta í Valenciu-héraði.
Fólk við hreinsunarstörf í Paiporta í Valenciu-héraði. AFP
Frá Utiel í Valenciu-héraði þar sem flóðin hafa valdið gríðarlegu …
Frá Utiel í Valenciu-héraði þar sem flóðin hafa valdið gríðarlegu tjóni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka