Flóðin á Spáni: Margir festust í bílum og í bílskúrum

Mikil eyðilegging varð í Paiporta. Hér má sjá hrúgu af …
Mikil eyðilegging varð í Paiporta. Hér má sjá hrúgu af bifreiðum sem flóðið sópaði til hliðar, slíkur var krafturinn. AFP

Yfir 200 eru látnir eftir flóðin miklu sem gengu yfir austurhluta Spánar í vikunni. Margir hafa velt vöngum yfir því hvers vegna svo margir biðu bana. Ástæðurnar eru margþættar, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins

Meirihluti þeirra sem létust var búsettur í Valenciu-héraði landsins. Staðan er sérstaklega slæm í bænum Paiporta þar sem 62 létust. Þar búa um 25.000 manns. 

Ökumenn sem festust í bílum sínum, vont skipulag og viðbúnaður yfirvalda og gríðarlega mikil úrkoma, sem er sögð tengjast loftslagsbreytingum, eru þættir sem eru sagðir eiga þátt í þessu mannfalli. 

Björgunvarsveitarmaður sést hér halda á barni í bænum Picanya.
Björgunvarsveitarmaður sést hér halda á barni í bænum Picanya. AFP

Sendu neyðarboð of seint

Almannavarnir á svæðinu, sem eru undir stjórn héraðsstjórnarinnar, sendu neyðarboð í síma íbúa í og við borgina Valencia um kl. 20 að staðartíma (kl. 19 að íslenskum tíma) á þriðjudag. Þá þegar var staðan orðin mjög slæm víða og vatnsyfirborðið farið að hækka mjög mikið. 

Stór fjöldi þeirra sem létu lífið var í umferðinni, margir að snúa heim úr vinnunni, þegar það flæddi í skyndi. 

Tveir starfsmenn almannavarna sjást hér við í á við bæinn …
Tveir starfsmenn almannavarna sjást hér við í á við bæinn Paiporta. AFP

Landfræðileg lega hafði mikil áhrif í Paiporta

Myndskeið hafa verið birt sem sýna hvernig vatnsflaumurinn flæddi í gegnum Paiporta þar sem bílar fóru á flot. Þrátt fyrir að úrkoma hafi verið mun meiri á öðrum svæðum, t.d. í Utiel og Chiva, þá liggur gil í gegnum miðbæ Paiporta sem hafði þau áhrif að staðan varð mun alvarlegri. 

Bæjarstjórinn Maribel Albalat segir að bærinn hafi verið illa búinn undir þetta, þar sem mörg hús voru aðeins á einni hæð. Sex íbúar heimilis fyrir eldri borgara létust þegar flóðið ruddist inn í bygginguna. Albalat segir að í einhverjum tilvikum hafi fólk einfaldlega verið of rólegt. 

„Við erum ekki vön flóðum í Paiporta og fólk er ekki hrætt,“ segir hún. 

AFP

Bílskúrar hafi verið dauðagildrur

Fram kemur, að bílskúrar hafi verið miklar dauðagildrur. 

„Þegar það rignir þá fer fólk vanalega niður í bílskúrinn til að sækja bílana sína ef ske kynni að vatn myndi flæða inn í skúrinn,“ segir Albalat. 

A3-hraðbrautin, sem tengir Valencia við Madrid, var ein af mörgum umferðaræðum þar sem ökumenn sátu fastir þegar vatn flæddi yfir vegi og vatnshæðin óx hratt. Margir voru ekki vissir hvort það væri öruggara að bíða í bílnum eða reyna að forða sér. 

„Það eru án efa fleiri sem létu lífið vegna þess að vatnið skolaði fólki á brott sem yfirgaf bílana sína,“ sagði einn maður sem komst lífs af við sjónvarpsstöðina Telecinco. Annar maður segir að vatnið hafi náð honum upp að brjóstkassa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka