Standa með Rússum þar til sigur vinnst

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og Choe Son Hui, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands og Choe Son Hui, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, sjást hér fyrir miðri mynd í Moskvu. AFP

Norður-Kórea mun standa með Rússum þar til sigur vinnst í Úkraínu. Þetta segir Choe Son Hui, utanríkisráðherra N-Kóreu, sem er staddur í Moskvu, höfuðborg Rússlands. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar hafa varað við því að mörg þúsund norðurkóreskir hermenn gætu verið sendir til að berjast við hlið Rússa í Úkraínu á komandi dögum. 

Yfir 10.000 manna herlið

Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sagt að nú þegar sé hluti herliðsins komið til Kúrsk-héraðsins í Rússlandi sem er við landamærin að Úkraínu. Talið er að til standi að senda ríflega 10.000 norðurkóreska hermann á vettvang. Yfirvöld í Washington og í Suður-Kóreu hafa hvatt Norður-Kóreumenn til að draga herliðið til baka. 

Þá sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði fyrir viku að leyniþjónustur Úkraínu teldu að Rússar myndu senda hersveitir skipaðar Norður-Kóreumönnum til bardaga um helgina. Sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum að þetta væri skýr stigmögnun átakanna af hálfu Rússa, og að það skipti máli í ljósi þeirra falsfregna sem borist hefðu af fundi BRICS-ríkjanna í Kasan í Rússlandi.

„Við munum ávallt standa þétt við hlið rússneskra félaga okkar þar til sigur vinnst,“ sagði Choe eftir að hafa átt fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. 

„Heilög barátta“

Hún sagði að N-Kórea efaðist ekki um skynsamlega forystu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sem skrifaði undir tvíhliða samning í sumar þar sem ríkin heita nánari samvinnu. 

Choe sagði að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu væri „heilög barátta“. 

Þá hét hún því að N-Kórea muni halda áfram að þróa kjarnorkuvopn, en talið er að þarlend stjórnvöld vilji fá aðstoð Rússa á því sviði í staðinn fyrir hernaðarlegan stuðning. 

Hafa ekki neitað fréttunum

Hvorki Rússar né Norður-Kóreumenn hafa neitað fréttum um flutning á norðurkóreska herliðinu, án þess þó að minnast á þessi tíðindi með beinum hætti. 

Lavrov fagnaði aftur á móti „afar nánum“ tengslum herliða og sérsveita þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert