Norður-Kórea mun standa með Rússum þar til sigur vinnst í Úkraínu. Þetta segir Choe Son Hui, utanríkisráðherra N-Kóreu, sem er staddur í Moskvu, höfuðborg Rússlands.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar hafa varað við því að mörg þúsund norðurkóreskir hermenn gætu verið sendir til að berjast við hlið Rússa í Úkraínu á komandi dögum.
Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sagt að nú þegar sé hluti herliðsins komið til Kúrsk-héraðsins í Rússlandi sem er við landamærin að Úkraínu. Talið er að til standi að senda ríflega 10.000 norðurkóreska hermann á vettvang. Yfirvöld í Washington og í Suður-Kóreu hafa hvatt Norður-Kóreumenn til að draga herliðið til baka.
Þá sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði fyrir viku að leyniþjónustur Úkraínu teldu að Rússar myndu senda hersveitir skipaðar Norður-Kóreumönnum til bardaga um helgina. Sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum að þetta væri skýr stigmögnun átakanna af hálfu Rússa, og að það skipti máli í ljósi þeirra falsfregna sem borist hefðu af fundi BRICS-ríkjanna í Kasan í Rússlandi.
„Við munum ávallt standa þétt við hlið rússneskra félaga okkar þar til sigur vinnst,“ sagði Choe eftir að hafa átt fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Hún sagði að N-Kórea efaðist ekki um skynsamlega forystu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sem skrifaði undir tvíhliða samning í sumar þar sem ríkin heita nánari samvinnu.
Choe sagði að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu væri „heilög barátta“.
Þá hét hún því að N-Kórea muni halda áfram að þróa kjarnorkuvopn, en talið er að þarlend stjórnvöld vilji fá aðstoð Rússa á því sviði í staðinn fyrir hernaðarlegan stuðning.
Hvorki Rússar né Norður-Kóreumenn hafa neitað fréttum um flutning á norðurkóreska herliðinu, án þess þó að minnast á þessi tíðindi með beinum hætti.
Lavrov fagnaði aftur á móti „afar nánum“ tengslum herliða og sérsveita þjóðanna.