Í uppsiglingu gæti verið dómsmál um bætur úr hendi norska ríkisins vegna veikinda af völdum kórónuveirubólusetninga meðan á heimsfaraldrinum stóð, en þrettán milljónum bólusetningarskammta var sprautað í norsku þjóðina meðan faraldurinn geisaði.
Hafa Skaðatryggingar sjúklinga í Noregi, Norsk pasientskadeerstatning, eða NPE, meðhöndlað alls 1.513 bótakröfur vegna veikinda sem upp komu í kjölfar bólusetninganna og samþykkt bótagreiðslur í 419 tilfellum. Af þeim sem synjað var um bætur úr ríkissjóði beindu 133 kvörtunum þar að lútandi til kærunefndar heilbrigðisþjónustu, Helseklage eins og hún kallast í stuttu máli, sem féllst aðeins á að tveir 133 kvartenda ættu bótarétt.
Segir formaður nefndarinnar, Kjetil Gjøen, sem áður gegndi embætti héraðsdómara, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að í þeim málum, þar sem nefndin hafi synjað um bótarétt, hafi ekkert orsakasamhengi reynst fyrir hendi milli bólusetningar og þeirra kvilla sem hrjáðu kvartendur.
Magne Strandberg, lagaprófessor við Háskólann í Bergen, telur rétt að láta reyna á bótamálið fyrir dómi.
„Já, það er algjörlega tímabært,“ segir prófessorinn við NRK, „sú matsvinna sem slíkt mál krefst er ekki einföld. Hér er um réttaróvissu að ræða sem dómstóll þyrfti að skera úr um. Helst þyrfti málið að ganga alla leið til Hæstaréttar svo örugg niðurstaða fáist,“ segir Strandberg enn fremur.
Gjøen nefndarformaður fellst á sjónarmið prófessorsins og kveður athyglisvert að fá álit dómstóla á málinu. „Við munum ekki fá neinn endanlegan dóm, hver svo sem niðurstaðan verður, þar sem nýjar rannsóknarskýrslur eru lagðar fram í sífellu. Það sem er athyglisvert er að dómstóll leggi mat á sönnunarfærslu í þessum málum,“ segir hann.
Innan stéttar ónæmisfræðinga ríkir óeining um hvort bólusetningarnar geti hafa orsakað þau sjúkdómseinkenni sem fram koma hjá sumum þiggjendum bóluefnanna sem þegar meðan á faraldrinum stóð urðu mjög umdeild – jafnvel grundvöllur fjölda samsæriskenninga. Svo ein þeirra sé nefnd gekk sú út á að allur faraldurinn hefði verið settur á svið til að lækka meðalaldur jarðarbúa með því að sprauta eldri borgara með eitruðum bóluefnum.
Hafi lesendur áhuga á að kynna sér fleiri samsæriskenningar má lesa grein fjórtán höfunda sem birtist í greinasafni Almenningsbókasafns um vísindi, Public Library of Science, í Bandaríkjunum undir fyrirsögninni Sögusagnir og samsæriskenningar um COVID-19-bólusetningar: Þörfin fyrir vitsmunalega umræðu í stað rangra upplýsinga svo efla megi tiltrú á bólusetningar.
Í haust lagði Elling Ulvestad, prófessor í ónæmisfræði við Háskólann í Bergen, fram skýrslu um málið að beiðni Hjúkrunarfræðingafélags Noregs og sagði við það tækifæri í viðtali við NRK að þau þrjú bóluefni sem notuð hefðu verið í Noregi gætu leitt til sjúkdóma með einkennum á borð við síþreytu, vöðvaverki og minnistap.
Skýrsla Ulvestads sætti nokkurri gagnrýni í kjölfar útgáfu, meðal annars vegna þess að höfundur vísaði til óritrýndra rannsókna. Vísaði prófessorinn þeirri gagnrýni á bug, en engu að síður kaus kærunefnd heilbrigðisþjónustu að virða verk hans að vettugi.
„Það er vegna þess að við höfum aðrar matsgerðir undir höndum sem segja aðra hluti, fyrst og fremst mat prófessors Gunnveigar Grødeland við Háskólann í Ósló, sem kemst að annarri niðurstöðu hvað þetta varðar, segir Gjøen nefndarformaður.