Badenoch nýr leiðtogi Íhaldsflokksins

Kemi Badenoch, fyrrverandi jafnréttismálaráðherra, er nýr leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi. 

Hún tekur við af Rishi Sunak sem sagði af sér í júlí í kjölfar þess að flokk­ur­inn hlaut sögu­lega slæma kosn­ingu í þing­kosn­ing­um.

Badenoch er 44 ára gömul og sigraði Robert Jenrick, fyrrverandi innflytjendaráðherra, með 57% atkvæða. Hún er sjötti leiðtogi Íhaldsflokksins á innan við átta og hálfu ári. 

Hún sagði það vera mikinn heiður að vera nýr leiðtogi flokksins, en að „verkefnið sem blasir við okkur sé erfitt“. 

„Við þurfum að vera heiðarleg um þá staðreynd að við höfum gert mistök,“ sagði Badenoch.

Kemi Badenoch.
Kemi Badenoch. AFP

Fædd í Lundúnum en ólst upp í Lagos

Hún er fædd í Lundúnum. Foreldrar hennar eru frá Nígeríu og hún ólst upp í Lagos. 

Badenoch hefur kallað eftir því að snúa aftur að íhaldssömum gildum, en hún hefur sakað flokkinn um að hafa orðið sífellt frjálslyndari í samfélagsmálum. 

Badenoch hefur lýst sjálfri sér sem beinskeyttri, eiginleiki sem hefur valdið henni vandræðum í kosningabaráttunni. 

Er hún fjallaði um innflytjendamál og hverjir ættu að búa í Bretlandi sagði Badenoch að „ekki allir menningarheimar væru jafngildir“. 

Þá hefur hún verið harðlega gagnrýnd fyrir að gefa í skyn að lögbundið fæðingarorlof mæðra hjá litlum fyrirtækjum sé „óhóflegt“.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Badenoch var kjörin leiðtogi flokksins í dag.
Badenoch var kjörin leiðtogi flokksins í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert