Fyrrverandi lögreglumaður fundinn sekur

Tayl­or var skot­in átta sinn­um af lög­reglu­mönn­um sem rudd­ust inn …
Tayl­or var skot­in átta sinn­um af lög­reglu­mönn­um sem rudd­ust inn í íbúð henn­ar í Louis­ville fyrir fjórum árum. AFP

Fyrrverandi lögreglumaður í Kentucky í Bandaríkjunum hefur verið fundinn sekur um að hafa brotið gegn borgaralegum réttindum Breonnu Taylor, blökkukonu sem myrt var á heimili sínu fyrir fjórum árum.

BBC greinir frá þessu en Brett Hankison, sem er 47 ára gamall, gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi eftir að hafa verið dæmdur fyrir að beita óhóflegu ofbeldi gegn Taylor, sem var 26 ára gömul og starfaði á sjúkrahúsi.

Hún var skotin margoft 13. mars 2020 en lögreglumenn sem fóru inn á heimili hennar héldu fyrir mistök að fíkniefni væru á heimilinu. Engin fíkniefni fundust hins vegar á vettvangi.

Mikil mótmæli brutust út sumarið 2020 þar sem þúsundir Bandaríkjamanna lögðu niður störf og gengu út af vinnustöðum sínum til að mótmæla kynþáttarfordómum, ójöfnuði og ofbeldi að hálfu lögreglunnar.

Þetta er í þriðja sinn sem Hankison var dreginn fyrir rétt í málinu og markar dómurinn tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem lögreglumaður er dæmdur fyrir árás lögreglu sem leiddi til dauða Taylors.

Hann er sá fyrsti af fjórum lögreglumönnum, sem fóru inn í íbúð Taylors, sem er ákærður í málinu.

Taylor var sofandi þegar lögregla réðst inn á heimili hennar og kærasta hennar.

Kærasti hennar vaknaði við lætin og spurði hver væri þar á ferð en fékk ekkert svar. Hann greip því byssu sína og hleypti af einu skoti.

Lögreglumennirnir svöruðu með því að skjóta fjölmörgum skotum og varð Taylor fyrir átta skotum þar sem hún lá í rúmi sínu og lést.

Skaut tíu skotum

Hankison skaut tíu skotum inni í íbúðinni sem hann sagðist hafa gert til að vernda aðra lögreglumenn eftir að kærasti Taylor hleypti af skoti.

Ekkert af skotum Hankison hæfði Taylor, heldur byssukúlur úr byssu annars lögreglumanns.

Fjölskylda Taylors brast í grát í dómsalnum eftir að dómurinn var kveðinn upp í gær að sögn bandaríska fjölmiðilsins Louisville Courier Journal.

Saksóknarar í málinu vildu að Hankison yrði þegar í stað handtekinn en beiðni þeirra var hafnað af dómara að því er fjölmiðillinn greinir frá.

Dómur yfir Hankison verður kveðinn upp 12. mars á næsta ári en hann var rekinn úr lögreglunni í Louisville í júní 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert