Pedro Sánchez forsætisráðherra ávarpaði spænsku þjóðina í dag greindi frá því að 211 hafi fundist látnir eftir hamfaraflóðin í Valencia-héraði og nágrenni.
„Á síðustu tveimur sólarhringum hafa öryggissveitir ríkisins og herinn skoðað þúsundir bílskúra, heimila, árfarvega og vegi og fundið og fjarlægt 211 lík,“ segir Sánchez.
Hann greindi frá því að 5 þúsund hermenn hefðu verði sendir til viðbótar á vettvang, 4 þúsund í dag og eitt þúsund á morgun. Þá hafa 5 þúsund lögreglumenn verið sendir inn á flóðasvæðið.
Þúsundir sjálfboðaliða eru komnir til Valencia til aðstoðar við hreinsunar- og björgunarstarfa. Næstum öll dauðsföllin hafa verið skráð í austurhluta Valencia, þar sem þúsundir öryggis- og neyðarþjónustumanna vinna ákaft að því hreinsa rusl og leðju og í leit að líkum.
Yfirvöld hafa sætt gagnrýni vegna ófullnægjandi viðvörunarkerfa fyrir flóðin og margir íbúar hafa kvartað yfir því að viðbrögð við hamförunum séu of hæg.
„Mér er ljóst að viðbrögðin eru ekki næg, það eru vandamál og mikill skortur á mat og nauðsynjavörum. Bæir eru grafnir í leðju og örvæntingarfullt fólk leitar að ættingjum sínum,“ sagði Sánchez.
Embættismenn segja að tugir manna séu enn ófundnir en þar sem síma- og flutningskerfi eru alvarlega skemmd er erfitt að komast að nákvæmri tölu þeirra sem er saknað.