Eldingum sem laust niður í flóttamannabúðum í Úganda varð 14 manns að bana að því er lögregluyfirvöld í landinu greina frá.
BBC greinir frá þessu.
Lögregluyfirvöld segja að fórnarlömbin hafi verið viðstödd guðþjónustu á laugardagskvöldi þegar eldingunum laust niður. Embættismaður sagði í viðtali við útvarpsstöð í Úganda að allir sem létust hafi verið börn og þá eru 34 slasaðir.
Atvikið átti sér stað í Palabek–flóttamannabúðunum í norðvesturhluta landsins. Mikil rigning hefur verið undanfarið á svæðinu með þrumum og eldingum.
Í Palabek-flóttamannabúðunum búa meira en 80.000 flóttamenn og hælisleitendur, að sögn flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Margir eru frá nágrannaríkinu Suður-Súdan.