Hefur tröllatrú á Trump

Jeremy ásamt eiginkonu sinni.
Jeremy ásamt eiginkonu sinni. mbl.is/Hermann

Jeremy Critchfield, eigandi verslunarinnar Huntchef, er búsettur í litlum bæ sem heitir Chalkhill í Pennsylvaníu.

Hann er á dreifbýlu svæði, ekur um á pallbíl með vísun í upphaf Bandaríkjanna 1776, og það kemur kannski ekki á óvart að hann mun kjósa Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, á þriðjudag.

Blaðamaður mbl.is er á ferð um ríkið og ræddi við hann.

Finnur fyrir verðbólgunni 

Hann segir verðbólgu hafa verið „geðveika“ að undanförnu. Hann rekur verslun og segir að öll innkaup fyrirtækisins hafi hækkað og þar af leiðandi hafi hann þurft að hækka verð hjá sér. 

„Ég er að selja einhverjum eitthvað fyrir 15 dollara núna, sem ég seldi fyrir fjórum árum fyrir 9 dollara, en ég er ekki að auka hagnaðarhlutfallið,“ segir hann.

Hann er með stórt stuðningsskilti fyrir utan verslunina sína.
Hann er með stórt stuðningsskilti fyrir utan verslunina sína. mbl.is/Hermann

Sósíalismi innfluttur í landið

Af hverju ætlar þú að kjósa Trump?

„Bandaríkin voru stofnuð á grundvelli einstaklingsfrelsis og guðsgefinna réttinda. Frá stofnun Bandaríkjanna þá hafa hlutirnir breyst og þá sérstaklega á síðustu 40 árum. Stjórnmálastéttin og auðstéttin í þessari þjóð hafa innflutt sósíalískt og dystópískt rusl sem er í berhöggi við allt sem þjóðin var mynduð í kringum.

Donald J. Trump er á þessari stundu eini maðurinn – ásamt fólkinu sem er í kringum hann – sem getur hjálpað okkur að snúa við þessari þróun, leyft hjólum hagkerfisins að fara snúa aftur og tryggt frelsi okkar aftur. Þetta eru meðal þeirra ástæðna sem ég ætla að kjósa hann.“

„Trump vinnur þetta“

Bærinn Chalkhill er um klukkutíma suðaustur frá borginni Pittsburgh og Jeremy telur að um 85% íbúa á svæðinu muni kjósa Trump.

Heldurðu að hann vinni kosningarnar í Pennsylvaníu?

„Trump vinnur þetta. Verðbólgan svíður og allir finna fyrir henni í heimilisbókhaldinu,“ segir hann og bætir við að honum finnist demókratar hafi gengið of langt í Covid-faraldrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert