Heimsókn Filippusar Spánarkonungs og Letiziu drottningar á hamfarasvæðin á Spáni hefur verið aflýst.
Ástæðan er óblíðar móttökur sem konungshjónin og Pedro Sánchez forsætisráðherra fengu þegar þau sóttu heim bæinn Paiporta í Valencia–héraði á Spáni í dag.
Köstuðu reiðir íbúar leðju í fyrirmennin og kölluðu þau morðingja.
Til stóð að konungshjónin myndu heimsækja bæinn Chiva, sem líkt og Paiporta fór illa út úr flóðunum, en ekki verður af þeirri heimsókn.
Reiði hefur ríkt vegna skorts á viðvörunum og ófullnægjandi stuðnings frá yfirvöldum eftir hamfaraflóðin og í gær viðurkenndi forsætisráðherrann að viðbrögðin hefðu ekki verið góð.