10 látnir eftir eldgos í Indónesíu

Gos úr eldfjallinu Lewotobi Laki-Laki hófst í nótt og olli …
Gos úr eldfjallinu Lewotobi Laki-Laki hófst í nótt og olli talsverðum skemmdum og mannfalli á eyjunni Flores í Indónesíu. Reglulega hefur gosið úr fjallinu síðasta árið. AFP/Arnold Welianto

Að minnsta kosti 10 eru látnir eftir að eldgos hófst í austurhluta Indónesíu í nótt í eldfjallinu Lewotobi Laki-laki á eyjunni Flores í héraðinu Austur-Nusa Tenggara.

Mikið öskufall hefur orðið í nágrenninu, auk þess sem greint hefur verið frá því að kviknað hafi í húsum í allt að fjögurra kílómetra fjarlægð. Hefur eldgosið haft umtalsverð áhrif í sjö þorpum.

Samkvæmt upplýsingum frá miðstöð um eldgosavá í Indónesíu kviknaði í íbúðarhúsnæði eftir að gosefni frá eldgosinu lenti á húsum, en talsmaður stofnunarinnar sagði hraunsteina hafa skotist frá gígnum og lent á húsunum.

Gosið hefur valdið talsverðum skemmdum í nærliggjandi þorpum.
Gosið hefur valdið talsverðum skemmdum í nærliggjandi þorpum. AFP/Arnold Welianto

Hefur öllum íbúum í sjö kílómetra fjarlægð verið gert að rýma svæðið, en íbúum er beint í þorp sem eru í allavega 20 kílómetra fjarlægð.

Samkvæmt myndböndum sem BBC-fréttastofan hafði fengið send mátti sjá íbúa þakta ösku og glóandi hraunsteina falla.

Almannavarnir Indónesíu hafa varað við hlaupum í nærliggjandi ám og hraunflæði á komandi dögum.

Almannavarnaástandi hefur verið lýst yfir næstu tvo mánuði, en það þýðir að stjórnvöld munu senda aðstoð til þeirra 10 þúsund íbúa sem búa á svæðinu.

Lewotobi Laki-laki er eitt eldfjalla á austurhluta eyjunnar Flores. Gosið hefur reglulega úr fjallinu síðan í desember á síðasta ári og var viðvörun í gangi um að íbúar ættu að halda sig í meira en 3 km fjarlægð frá fjallinu.

Flores-eyjan er austur af eyjunni Jövu, þar sem höfuðborgin Jakarta er, og suður af Sulawesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka