Skoska lögreglan hefur staðfest að afskorið höfuð sem fannst á götu í Edinborg í fyrrakvöld hafi tilheyrt 74 ára karlmanni sem lést í árekstri við rútu.
Samkvæmt Edinburgh News fannst höfuðið í Cowgate-hverfinu og var lögregla strax send á vettvang og girti stóran hluta götunnar af.
Skemmtistöðum í nágrenninu var sömuleiðis lokað vegna rannsóknarinnar og hrekkjavökuviðburðum aflýst.
Lögreglan segir rannsókn málsins enn í gangi og óskar eftir því að almenningur stígi fram með hvers kyns ábendingar eða myndefni sem hann kunni að búa yfir.
Myndefni sem virðist sýna höfuð fórnarlambsins á götunni hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum og hefur lögregla beðið fólk að taka efnið úr dreifingu af virðingu við aðstandendur hins látna. Í einu þeirra virðist hópur karlmanna í hrekkjavökubúningum finna höfuðið.