Hvað verður um sakamálin ef Trump vinnur? Eða tapar?

Eftir nokkra daga verður að öllum líkindum ljóst hvort að …
Eftir nokkra daga verður að öllum líkindum ljóst hvort að Donald Trump verði aftur Bandaríkjaforseti. AFP

Úrslit kosninganna í Bandaríkjunum hafa mikla þýðingu fyrir Donald Trump, fyrrverandi forseta og forsetaframbjóðanda, persónulega. Enginn annar forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna hefur staðið frammi fyrir jafn ólíkum útkomum kosninga.

Arfleifð Trumps, auðæfi og frelsi hans gæti verið ákveðið af nokkrum þúsundum kjósenda í sveifluríkjunum sjö.

Fyrir rúmlega 14 mánuðum tók blaðamaður saman ákærurnar fjórar sem hafa verið gefnar út á hendur Trump. Það var áður en hann var formlega útnefndur sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. 

Hér verður stuðst við umfjöllun ABC News um stöðuna á ákærunum fjórum og afleiðingar sem þær gætu haft á hagi fyrrverandi forsetans. 

„Ef hann vinnur, getum við kvatt öll sakamálin“

Trump hefur heitið því að ef hann verði aftur forseti muni hann reka Jack Smith, sérstakan saksóknara, sem leiðir málin gegn honum í Washington D.C. og Flórída, „á innan við tveimur sekúndum“. 

Trump hefur sagst munu refsa saksóknurum og dómurum sem fóru fyrir málunum gegn honum. Þá hefur hann sagst líklega munu sleppa við alvarlegar afleiðingar hvers kyns sakargifta sem hann horfist áfram í augu við.

„Ef hann vinnur, getum við kvatt öll sakamálin,“ sagði Karen Friedman Agnifilo, fyrrverandi héraðssaksóknari á Manhattan.

Trump hefur hótað að reka Jack Smith, sérstakan saksóknara.
Trump hefur hótað að reka Jack Smith, sérstakan saksóknara. AFP

Stór vendipunktur í júlí

„Sakamálunum er lokið, hvort sem það er löglega eða í framkvæmd,“ sagði hún og bætti við að ef Trump sigrar í kosningunum þýði það svokallað „get out of jail free card“, og vísaði þar í spil í Monopoly þar sem leikendur geta komist hjá því að fara í fangelsi.

Ef Kamala Harris verður forseti gæti Trump átt yfir höfði sér margra ára dómsmál, þurft að greiða hundruð milljóna dollara sektir og átt möguleika á fangelsisvist.

Þess ber að geta að stór vendipunktur varð í málum Trumps í júlí er Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna ættu rétt á friðhelgi að hluta til, það er að segja, gagnvart því sem þeir gera í starfi en ekki sem almennir borgarar.

New York

Í maí var Trump sakfelldur í máli tengdu fölsuðum viðskipta­skjöl­um og greiðslum til klám­mynda­leik­kon­unn­ar Stor­my Daniels á Manhattan. Það var í fyrsta sinn sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur verið sakfelldur. 

26. nóvember verður dómsuppkvaðning í málinu. Lögfræðiteymi Trumps hefur tekist að fresta uppkvaðningunni tvisvar.

Í síðara skiptið ákvað Juan Mechan dómari að fresta uppkvaðningunni til þess að tryggja að úrskurður kviðdómsins yrði virtur og ekki „útþynntur út af umfangi komandi kosninga“.

Lögspekingar sem ABC News ræddi við sögðu nokkrir að vegna alvarleika brotanna sem Trump hefur verið dæmdur fyrir gæti verið að Merchan dómari dæmi hann til fangelsisvistar. Helmingur lögspekinganna taldi það hins vegar ólíklegt. 

Trump þann 30. maí er hann var sakfelldur.
Trump þann 30. maí er hann var sakfelldur. AFP

Sitjandi forseti ekki krafinn um fangelsisvist

Dómsuppkvaðningin gæti átt sér stað seinna í nóvember jafnvel þó að Trump sigri í kosningunum.

Jeffrey Cohen, lagaprófessor hjá Boston háskóla, telur þó að dómarinn gæti ákveðið vægari refsingu, svo sem einn dag í skilorðsbundið fangelsi, eða þá að hann fresti dóminum þar til Trump lætur af embætti. 

„Sitjandi forseti yrði ekki krafinn um fangelsisvist á meðan hann er í embætti, svo hann gæti fræðilega frestað vistinni þar til hann er farinn úr embætti,“ sagði Cohen. 

„Ef hann vinnur, þá held ég að raunin verði að það verði engin marktæk refsing,“ sagði Agnifilo, fyrrverandi héraðssaksóknari á Manhattan. 

Ákvörðun um frávísun 12. nóvember 

Lögfræðiteymi Trumps gæti líka reynt að fresta dómsuppkvaðningunni enn og aftur. Enn á eftir að úrskurða um margvíslegar tilraunir Trumps til að tefja málið.

12. nóvember ætlar Merchan dómari að úrskurða hvort vísa eigi málinu frá vegna dóms Hæstaréttar um friðhelgi fyrrverandi forseta.

Ef dómarinn neitar að vísa málinu frá gæti Trump frestað dómsuppkvaðningu með því að áfrýja ákvörðuninni.

Trump hefur þegar óskað eftir að málið fari fyrir alríkisdómstól.

Ólíkt málunum sem eru höfðuð hjá alríkisdómstólum, þar sem Trump gæti fræðilega séð náðað sjálfan sig, mun mál dómstólsins á Manhattan líklega ekki falla undir dóm Hæstaréttar, jafnvel þó Trump nái að flytja málið yfir til alríkisdómstóls að sögn Cohen.

Málin í Washington D.C. og Flórída eru alríkismál, en í Georgíu og New York eru þau höfðuð í héraðsdómstólum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington.
Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington. AFP

Washington D.C.

Tanya Chutkan dómari hefur ekki tekið ákvörðun hvað skuli gera í máli Trumps sem snýr að ólögmætum tilraunum hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020 eftir dóm Hæstaréttar. 

Dómur Hæstaréttar hefur tafið málið um nærri því ár. 

Fimmtán mánuðum eftir að Trump neitaði sök hefur Chutkan dómari sett skilafrest til að leggja fram gögn í málinu þann 19. desember. 

Jack Smith, sérstakur saksóknari, hefur farið fyrir málinu og sagði hann í október að Trump ætti ekki að njóta friðhelgi forsetaembættisins þar sem glæp­irn­ir tengdust for­seta­embætt­inu. 

Mótmæli fyrir utan Hæstarétt í kjölfar dómsins í júlí.
Mótmæli fyrir utan Hæstarétt í kjölfar dómsins í júlí. AFP

Bannað að sækja sitjandi forseta til saka

Eins og áður sagði hefur Trump hótað að reka Smith ef hann nær kjöri.

Það gæti þó verið að ekki verði þörf á því þar sem langvarandi stefna dómsmálaráðuneytisins bannar að sitjandi forseti verði sóttur til saka. Það þýðir að mögulega verði tafarlaust hætt við alríkismálin gegn Trump ef hann verður forseti.

Samkvæmt Bennet Gersham, lagaprófessor, gæti Smith haldið málinu áfram áður en Trump tæki formlega við embættinu í janúar, en litlar líkur eru á að það yrði til nokkurs.

„Þau gætu haldið áfram að gera það sem þau eru að gera en það á ekki eftir að skipta neinu máli, þar sem að Trump getur skipað nýjan dómsmálaráðherra sem mun leggja fram tillögu um að vísa ákærunum frá.“

Margir möguleikar

Ljóst er því að alríkismálin munu óhjákvæmilega hverfa á brott ef Trump vinnur, en nákvæmlega hvernig það mun gerast er óvíst. 

Smith gæti reynt að gefa út lokaskýrslu um niðurstöður sínar, Trump gæti staðið frammi fyrir baráttu við þingið, dómsmálaráðherra gæti rekið Smith eða Chutckan dómari gæti tekið slaginn við dómsmálaráðuneytið um að vísa málinu ekki frá. 

Ef Trump tapar kosningunum er búist við því að dómarinn meti áfram hvort að Trump njóti friðhelgi í einhverjum ákæruliðum. Lokaákvörðun hennar verður að öllum líkindum áfrýjað, sem mun leiða til þess að réttarhöldin frestast um að minnsta kosti eitt ár í viðbót. 

Stuðningsmenn Trumps með bandaríska fánann í Pennsylvaníu.
Stuðningsmenn Trumps með bandaríska fánann í Pennsylvaníu. AFP

Flórída

Í júlí vísaði dómarinn Aileen Cannon frá málinu sem varðar trúnaðarskjöl sem Trump tók með sér úr Hvíta húsinu. Í kjölfarið áfrýjaði Jack Smith málinu.

Cannon hafði vísað málinu frá á þeim forsendum að skipun Smiths sem sérstakur saksóknari hefði brotið í bága við stjórnarskrána.

Ef Trump sigrar í kosningunum munu saksóknarar líklega ekki hafa annarra kosta völ en að draga til baka áfrýjunina og þannig staðfesta ákvörðun Cannon dómara, að sögn Agnifilo.

Cannon orðuð við embætti dómsmálaráðherra

Ef Trump lýtur í lægra haldi stendur málið frammi fyrir langri leið að réttarhöldum. 

Saksóknarar þurfa að sannfæra áfrýjunardómstól í Atlanta um að snúa við dómi Cannon. Lögfræðiteymi Trumps hefur þegar lagt fram vörn byggða á friðhelgi forsetans. 

Cannon var skipuð af Trump sem dómari til lífstíðar árið …
Cannon var skipuð af Trump sem dómari til lífstíðar árið 2020, þá 38 ára gömul. AFP

Að sögn Cohens lagaprófessors gæti Smith einnig farið fram á að Cannon dómara yrði vikið frá málinu.

„Ég er ekki viss um hverjar ástæðurnar eru núna fyrir utan: „Okkur líkar ekki við ákvörðun hennar“,“ sagði Cohen. 

Cannon hefur verið orðuð við embætti dómsmálaráðherra ef Trump nær kjöri. Á fimmtudag neitaði hún því og sagði um orðróm að ræða. 

„Við áttum hugrakkan, snjallan dómara í Flórída. Hún er frábær dómari. Ég þekki hana ekki. Hef aldrei talað við hana. En við eigum hugrakkan og mjög frábæran dómara,“ sagði Trump um Cannon í október. 

Georgía

Mál Trumps í Georgíu, sem tengist einnig ólögmætum tilraunum hans til að hafa áhrif á kosningarnar 2020, hefur tafist frá því í júní.

Ákvörðun Scott McA­fee dómara um að víkja Fani Willis saksóknara ekki frá málinu fór þá til áfrýjunardómstóls.

Willis átti í ástarsambandi við starfsmann embættis hennar. Hann sagði upp störf­um svo að málið gæti haldið áfram. 

Fani Willis þurfti að bera vitni um ástarsamband sitt.
Fani Willis þurfti að bera vitni um ástarsamband sitt. AFP/Alyssa Pointer

Málflutningur mun fara fram fyrir áfrýjunardómstólnum um hvort Willis þurfi að víkja 6. desember.

Spurður um framtíð málsins ef Trump verður forseti svaraði Steven Sadow, lögfræðingur hans, að hann hefði sagt McAfee dómara í desember að dómsmálinu yrði líklega frestað þar til Trump lyki kjörtímabili sínu.

Frá því að Trump var ákærður í málinu í ágúst árið 2023 hefur McAfee dómari vikið fimm liðum úr upprunalegu ákærunni sem var í 13 liðum.

Ef Trump verður ekki forseti gæti hann haldið áfram að fresta málinu með því að ýta á eftir því að Willis verði vikið frá eða farið fram á friðhelgi.

Sama hvernig fer í kosningunum á þriðjudag er ljóst að Donald Trump og ákærurnar fjórar verða áfram í deiglunni.

Trump á kosningafundi í Norður-Karólínu í vikunni.
Trump á kosningafundi í Norður-Karólínu í vikunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert