Ísrael rýfur öll tengsl við UNRWA

Palestínsk kona gengur fram hjá sundurskotnum vegg við flóttamannabúðir í …
Palestínsk kona gengur fram hjá sundurskotnum vegg við flóttamannabúðir í Rafah, en á veggnum má sjá merki UNRWA. Ísraelska þingið hefur nú bannað starfsemi stofnunarinnar á hernumdu svæðunum og stjórnvöld landsins hyggjast rjúfa við hana öll tengsl. AFP

Ísraelsk stjórnvöld hafa formlega tilkynnt Sameinuðu þjóðunum að þau hyggist rjúfa öll tengsl við Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ, UNRWA, í kjölfar þess er ísraelska þingið samþykkti að banna starfsemi hjálparstofnunarinnar á hernumdu svæðunum.

Hefur tilkynningin þegar vakið hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins, þar á meðal Bandaríkjanna sem eru hliðholl Ísrael, auk þess sem Öryggisráð SÞ hefur gefið það út að bann gegn starfseminni, sem talið er að taka muni gildi undir janúarlok, muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir milljónir Palestínumanna.

Hafa Ísraelar brigslað tugum starfsmanna UNRWA um að hafa tekið þátt í innrás Hamas-hryðjuverkasamtakanna 7. október í fyrra, mannskæðustu árás á Ísrael í sögu þess. Í kjölfar ásakananna voru níu starfsmenn UNRWA reknir.

Hjálparstarf hrynji til grunna

„Samkvæmt fyrirmælum Israel Katz utanríkisráðherra hefur ráðuneytið upplýst SÞ um ógildingu samkomulagsins milli ísraelska ríkisins og UNRWA,“ segir í yfirlýsingu ísraelska utanríkisráðuneytisins.

Að sögn Jonathans Fowlers talsmanns UNRWA leiðir bann ísraelskra stjórnvalda gagnvart stofnuninni að öllum líkindum til þess að hjálparstarf á Gasasvæðinu hrynji til grunna.

„Verði þessum lagabókstaf framfylgt hefur það sennilega í för með sér að alþjóðleg mannúðaraðstoð á Gasasvæðinu leggst af – þar er UNRWA hryggjarstykkið,“ segir Fowler við AFP-fréttastofuna og bætir því við að enn fremur fari þá öll bráðnauðsynleg grunnstarfsemi UNRWA á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem sömu leið, svo sem menntun, heilsugæsla og hreinsunarstarf.

Þessum fullyrðingum vísa ísraelsk stjórnvöld á bug með þeim rökum að UNRWA hafi aðeins annast hluta þeirrar hjálparstarfsemi sem fram fari á Gasa.

UNRWA eða ekkert

„Alþjóðalög skuldbinda Ísraelsríki sem eftir sem áður mun tryggja að mannúðaraðstoð berist til Gasasvæðisins án þess að öryggi ísraelskra borgara sé stefnt í voða,“ segir Katz utanríkisráðherra.

„Fyrir okkur er það UNRWA eða ekkert,“ segir Shafiq Ahmad Jad við AFP, en hann rekur símaverslun í Nur Shams-flóttamannabúðunum á Vesturbakkanum þar sem íbúarnir, 13.000 manns, eru felmtri slegnir eftir að skrifstofa UNRWA þar laskaðist í loftárás Ísraela í síðustu viku.

Hanadi Jabr Abu Taqa, yfirmaður aðgerða UNRWA á Vesturbakkanun, tekur í sama streng og segir við AFP að flóttafólkið líti á UNRWA eins og móður sína. „Ímyndaðu þér bara ef þau misstu móður sína,“ segir hann um áhyggjufulla flóttamennina sem eiga nú á hættu að enn á ný hrikti í grundvallarstoðum tilveru þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert