Læknir Harrods látinn skoða hvort þær væru hreinar

Mohammed Al Fayed lést á síðasta ári 94 ára gamall.
Mohammed Al Fayed lést á síðasta ári 94 ára gamall. AFP

„Þetta leit út eins og draumastarf,“ sagði Jen, sem byrjaði 16 ára gömul að vinna hjá Harrods-versluninni í Lundúnum. Hún er ein 400 einstaklinga sem hafa stigið fram og sakað Mohamed Al Fayed, fyrrverandi eiganda Harrods, um kyn­ferðisof­beldi.

Harrods hefur greint frá því að 250 manns hafi haft samband í þeim tilgangi að semja um sátt utan dómstóla. Þá hafa 60 manns haft samband við lögregluna í Lundúnum vegna mála sem ná aftur til ársins 1979.

AFP-fréttaveitan ræddi við Jen og Chesku. Þær lýstu báðar „mikilli reiði“ yfir því að Al Fayed yrði aldrei refsað, en hann lést á síðasta ári 94 ára gamall.

Jen hóf störf í Harrods árið 1986, ári eftir að Al Fayed varð eigandi, og starfaði þar til ársins 1991.

Cheska var 19 ára árið 1994 er hún byrjaði að starfa fyrir Al Fayed.

Þær sögðust hafa kynnst honum um leið og þær mættu í starfsviðtal.

Cheska, sem var listnemi, telur að teymi Al Fayed hafi séð mynd af henni í tímariti áður en haft var samband við hana.

„Ég held að andlit mitt hafi verið í samræmi við kröfur hans. Ég var ung og mjög barnaleg.“

Gerði engar athugasemdir 

Eftir að þær voru ráðnar var læknir Harrods fenginn til að skoða kynfæri þeirra í læknisfræðilegum tilgangi.

„Læknirinn gerði engar athugasemdir við þá staðreynd að ég var skoðuð til þess að ganga úr skugga um að ég væri hrein,“ sagði Jen sem er nú 54 ára.

„Og þegar ég spurði hann hvað hann meinti sagði hann að hann þyrfti að vita hvort ég væri hrein mey.“

Máttu ekki eiga kærasta

Al Fayed krafðist þess að Jen eignaðist ekki kærasta.

„Við máttum ekki eiga í neinum kynferðislegum samböndum.“

Í þau fimm ár sem Jen starfaði hjá Harrods þurfti hún að þola að verða „nokkrum sinnum fyrir kynferðisofbeldi“. Þá reyndi hann að nauðga henni á skrifstofu sinni og á heimili hennar í Lundúnum.

Jen sagðist hafa skammast sín of mikið og verið of hrædd til þess að segja samstarfsfélögum eða fjölskyldu sinni frá ofbeldinu.

Al Fayed árið 2007.
Al Fayed árið 2007. AFP

Hún og margar aðrar hafa lýst því hvernig símar þeirra voru hleraðir og myndavélum komið fyrir á skrifstofum þeirra.

Er Jen átti í leynilegu ástarsambandi kallaði Al Fayed hana á fund sinn og taldi upp nokkra staði þar sem parið hafði sést saman. Henni varð því ljóst að fylgst var með henni.

„Mér varð ljóst að þetta var ekki ofsóknaræði, þetta var í raun og veru að gerast,“ sagði Jen.

Sagði eiginmanninum frá eftir heimildarmyndina

„Ég vonaði að ég væri sú eina,“ sagði Jen og bætti við að hún væri í áfalli yfir því að heyra hversu margar konur hafa stigið fram.

Heimildarmyndin, Al-Fayed: Predator at Harrods, sem sýnd var á BBC í september leiddi til þess að margar konur stigu fram.

Í kjölfar sýningar myndarinnar „fordæmdi“ Harrods, sem er nú í eigu Katara, hegðun Al Fayed og bað fórnarlömbin afsökunar fyrir að hafa yfirgefið þau. 

Jen sagði eiginmanni sínum og foreldrum í fyrsta sinn frá ofbeldinu sem hún varð fyrir degi eftir að myndin var sýnd. 

Boðin í leikprufu á hótelherbergi 

Cheska sagði móður sinni frá ofbeldinu um leið.

Hún var upprennandi leikkona og Al Fayed hafði boðist að kynna hana fyrir syni sínum sem var framleiðandi, honum Dodi, sem lést í bílslysi ásamt Díönu prinsessu árið 1997.

Al Fayed bauð Chesku á hótelherbergið sitt eitt kvöldið eftir vinnu í leikprufu fyrir kvikmynd um Pétur Pan.

Hún var látin klæðast sundfötum fyrir myndavélina og sagt að segja ítrekað „taktu mig, taktu mig plís“.

Al Fayed, sem þá var sextugur, greip síðan í Chesku og kyssti hana með valdi.

Henni tókst að sleppa og steig aldrei aftur fæti í Harrods aftur.

Mohamed Al Fayed var eigandi Harrods frá árinu 1985 til …
Mohamed Al Fayed var eigandi Harrods frá árinu 1985 til ársins 2010. AFP

Stigu fram á tíunda áratugnum 

Bæði Jen og Cheska stigu fram í fjölmiðlum stuttu eftir að ofbeldið átti sér stað.

Jen sagði sögu sína í Vanity Fair á tíunda áratugnum undir nafnleynd. Öryggisvörður Harrods hafði samband við hana stuttu síðar og hótaði henni og fjölskyldu hennar.

Al Fayed stefndi tímaritinu fyrir meiðyrði. Sátt náðist við „syrgjandi föður“ eftir að Dodi lést.

Cheska sagði sögu sína í heimildarmynd sem var aldrei gefin út á tíunda áratugnum.

Árið 2017 kom hún fram á Channel 4 með andlit sitt hulið.

„En ekkert gerðist eftir það. Lögreglan aðhafðist ekkert,“ sagði Cheska og bætti við að raunin gerði hana örvæntingarfulla.

Búið að grafa skrímslið 

Báðar konurnar töluðu um þá reiði sem þær höfðu fundið fyrir eftir að Al Fayed lést.

„Nú er búið að grafa þetta skrímsli, án þess að hann yrði sóttur til saka. Reiðin er gríðarleg,“ sagði Cheska sem er nú fimmtug.

Hún vonar að fólk sem vann „skítverkin hans“, svo sem að skipuleggja læknisheimsóknir og ráða konur, verði sótt til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert