Tvær konur í Vestur-Miðhéruðum Bretlands komust að því að þeim hafði verið ruglað saman á fæðingardeildinni eftir að bróðir þeirra fékk DNA-heimapróf í jólagjöf - 55 árum eftir mistökin.
Saga kvennanna tveggja kemur fram í BBC-útvarpsþáttaröðinni The Gift eða Gjöfin, þar sem þáttarstjórnandinn Jenny Kleeman greinir frá ótrúlegum sögum þeirra sem hafa tekið DNA-heimapróf á borð við Ancestry og 23andMe, sem hafa farið vaxandi í vinsældum sem jólagjafir.
Bróðir kvennanna, Tony, tók DNA-prófið í febrúar árið 2022 sér og fjölskyldu sinni til gamans. Allt leit eðlilega út í fyrstu er honum bárust niðurstöðurnar þar til hann rak augun í nafn alsystur sinnar, Claire, en systir hans heitir raunar Jessica. Nöfnum kvennanna hefur verið breytt í umfjölluninni.
Hafði hann rakleiðis samband við Claire og kvaðst telja að um mistök væri að ræða, en spurði hvort hún vissi eitthvað sem hann vissi ekki.
Claire hafði fengið sams konar DNA-próf tveimur árum áður, í afmælisgjöf frá syni sínum og skildi hvorki upp né niður í niðurstöðunum. Engin tengsl var að finna við fæðingarstað foreldra hennar og eini ættinginn sem kom upp var frændi sem hún kannaðist engan veginn við.
Við frekara spjall komust Tony og Claire að því að þær Jessica hefðu fæðst á sama sjúkrahúsinu á sama tíma. Stóðu þau blóðsystkinin því frammi fyrir ákvörðuninni um hvort þau vildu yfirhöfuð greina fjölskyldum sínum frá uppgötvuninni.
Kvaðst Tony skilja að Claire vildi ekki fara lengra með málið en hún væri staðráðin í að hitta blóðmóður sína og systkini, en hún kvaðst ávallt hafa upplifað sig öðruvísi og ranga í fjölskyldunni sem hún ólst upp hjá.
Jessica tók fréttunum ekki jafn vel og Claire og veitti BBC ekki viðtal í þættinum. Hún er núna hætt að kalla uppeldismóður sína mömmu. Claire hefur aftur á móti tekið upp samband við fjölskylduna og kallar blóðmóður sína mömmu.
Þær mæðgurnar eiga margt sameiginlegt og eru afar líkar í útliti og fasi. Hefur það aftur á móti reynst þeim báðum erfitt að Claire ólst upp við mikla fátækt, heimilisleysi og óstöðugleika hjá uppeldisforeldrum sínum - sem núna eru látnir.
Þó að Jessica eigi enn erfitt með að samþykkja þennan nýja veruleika ítrekar uppeldismóðir hennar að hún verði ávallt dóttir hennar, hún hafi einfaldlega eignast dóttur til viðbótar.
Nýsameinaða fjölskyldan hefur sótt bætur hjá bresku heilbrigðisstofnuninni NHS, sem hefur gengist við mistökunum. Hafa þau aftur á móti enn ekki komist að samkomulagi um bótaupphæðina.
Árið 2017 greindi NHS frá því að ekki væru nein skjalfest dæmi um atvik þar sem börnum hefði óvart verið víxlað á fæðingardeild.
Frá níunda áratugnum hafa verið sett auðkennisarmbönd með útvarpsbylgjum (RFID) á nýbura strax við fæðingu, svo hægt sé að rekja staðsetningu þeirra öllum stundum. Jessica og Claire eru fæddar árið 1967 þegar fæðingardeildir reiddu sig enn á handskrifaða merkimiða á vöggum nýburanna.