„Það skiptir ekki máli hvor vinnur“

Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, ræddi við blaðamenn í Þýskalandi í …
Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, ræddi við blaðamenn í Þýskalandi í dag. AFP/Odd Andersen

Það mun ekki skipta máli hvor frambjóðandinn vinnur forsetakosningar í Bandaríkjunum, þjóðir Atlantshafsbandalagsins (NATO) munu standa saman, sagði Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO á blaðamannafundi í Þýskalandi í dag. AFP-fréttaveitan greinir frá.

Með þeim orðum reynir hann væntanlega að róa bandalagsþjóðir sem bíða með öndina í hálsinum eftir útkomu kosninganna í Bandaríkjunum, sem fara fram á morgun.

„Það skiptir ekki máli hvor vinnur, við munum vinna með Kamölu Harris, við munum vinna með Donald Trump, og við sjáum til þess að bandalagsþjóðir standi saman,“ segir Rutte.

Hann segist sannfærður um að sá frambjóðandi sem sigri kosningarnar muni halda áfram stuðningi Bandaríkjanna við NATO, enda sé það Bandaríkjamönnum í hag.

Óttast að Trump muni draga úr hernaðaraðstoð

Bandalagsþjóðir Vesturlanda óttast ófriðartíma fram undan í anda upphafs kalda stríðsins ef Trump sigrar kosningarnar. Í forsetatíð Trump, á árunum 2017 til 2021, gagnrýndi Trump bandalagið harðlega fyrir það hvernig fjármunum var ráðstafað. Hann hefur einnig gagnrýnt stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu, sem er aðildarríki NATO.

Trump varaði við því í febrúar síðastliðnum að hann myndi hvetja Rússa til að gera hvað sem þeir vildu við bandalagsþjóðir sem létu ekki meira fé af hendi rakna í sameiginlegar varnir. Harris hefur hins vegar ítrekað að hún muni halda áfram stuðningi við NATO og vinna með bandalagsþjóðum.

Bandalagsþjóðir óttast einnig að sigri Trump muni Bandaríkjamenn draga úr hernaðaraðstoð við Úkraínu.

Rutte segir að fréttir af norðurkóreskum hersveitum í Rússlandi geri það enn mikilvægara en áður að halda Atlantshafinu og Kyrrahafinu öruggu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert