„Uppljóstraralög“ valda deilum í Svíþjóð

Svíar hafa lagt aukna áherslu á landamæraeftirlit.
Svíar hafa lagt aukna áherslu á landamæraeftirlit. AFP

Sænsk stjórnvöld eru áfjáð í að kynna til sögunnar ný „uppljóstraralög“, sem miða að því að skylda opinbera starfsmenn til þess að tilkynna yfirvöldum um ólöglega innflytjendur sem sækja þjónustu þeirra. Málið þykir umdeilt og hefur valdið miklum deilum í samfélaginu.

Talið er að allt að 180 þúsund manns búi í landinu án þess að þeir séu skráðir í kerfum stjórnvalda. Um 20% landsmanna fæddust utan Svíþjóðar.

Uppljóstraralögin eru að upplagi stjórnarsáttmála sem mið-hægri stjórn kom sér saman um eftir kosningar árið 2022. Verði frumvarpið samþykkt í þinginu mun það skylda opinbera starfsmenn á borð við lækna, kennara, starfsfólk í félagsþjónustu og bókasafnsverði til að tilkynna um þá sem taldir eru utan kerfisins.

Eldfimt mál 

Sambærileg áform eru uppi í Finnlandi þar sem til stendur að leggja aukna áherslu á að hafa uppi á þeim sem eru utan kerfa landsins.

Vinstri menn í Svíþjóð hafa gagnrýnt áformin harðlega og telja þau ómannúðleg auk þess sem þau kunni að skapa aðstæður þar sem traust innflytjenda til stofnana samfélagsins gæti dvínað.

Skiptar skoðanir eru á málinu á sveitastjórnarstiginu og hafa fleiri bæjarfélög lagst gegn áformunum en eru fylgjandi.

Hefur á það verið bent að kennarar og læknar séu settir í erfiða stöðu þegar þeir eiga að sinna landamæraeftirliti á sama tíma og þeir beri skyldur gagnvart börnum og sjúklingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert